Rútufyrirtækið Allrahanda GL (AGL), sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Grayline hér á landi, tapaði 169 milljónum króna á síðasta ári. Til samanburðar tapaði félagið 699 milljónum árið 2020.
Velta félagsins nam 490 milljónum á árinu og dróst saman um 317 milljónir milli ára. Eigið fé félagsins var neikvætt upp á 241 milljónir króna og eiginfjárhlutfall félagsins neikvætt um 12,6% í árslok 2021. Skuldir félagsins námu 2.155 milljónum króna í lok árs 2021.
Reksturinn hefur verið þungur á síðastliðnum árum. Þannig skilaði félagið síðast hagnaði árið 2015. Tekjur félagsins drógust jafnt og þétt saman á árunum fyrir faraldurinn. Þær námu 4 milljörðum árið 2017 en tæpum 2,2 milljörðum króna árið 2019 en um 800 milljónum faraldursárið 2020.
Á síðasta ári aðskildi AGL ferðaskrifstofurekstur og rúturekstur félagsins. Þannig var ferðaskrifstofureksturinn færður í dótturfélagið GL Iceland ehf. GLI hagnaðist um 7 milljónir á síðasta ári og nam veltan 422 milljónum. Eigið fé var 56 milljónir og eiginfjárhlutfallið 30%.
Í ársreikningi AGL segir að árið 2021 hafi einkennst af miklum sveiflum vegna takmarkana og óvissu vegna heimsfaraldurins. „Félagið nýtti sér stuðningsaðgerðir stjórnvalda á árinu til að mæta að einhverju leyti þeim neikvæðum áhrifum sem þetta hafði í för með sér.“
AGL fékk heimild fyrir greiðluskjóli þann 29. júní 2020 og hélst félagið í skjóli til 25. júní 2021. Í framhaldi óskaði félagið eftir nauðasamningum við kröfuhafa og stóð sú vinna fram á árið 2022.
Í lok júlí á þessu ári voru samningar samþykktir af kröfuhöfum félagsins, en samningurinn hlaut samþykki 86,6% atkvæðismanna á fundinum og 89,2% kröfufjárhæða. Enn er beðið samþykktar héraðsdóms á samningunum, sem felur í sér að lánardrottnar sem fara með samningskröfur er boðin greiðsla á 30% krafna sinna.
Framtakssjóðurinn Akur fjárfesting ehf., sem er í rekstri hjá Íslandssjóðum og er að mestu í eigu lífeyrissjóða er stærsti hluthafi AGL í lok árs með 49% hlut. Þá eiga Sigurdór Sigurðsson framkvæmdastjóri AGL og Þórir Garðarsson stjórnarformaðurr AGL 25,5% hlut hvor um sig.