Breska matvöruverslunarkeðjan Tesco tilkynnti í dag um 181 milljóna punda sölu, sem jafngildir um 28 milljarða íslenskra króna, á 301 verslun í Póllandi, ásamt dreifistöðum og aðalskrifstofu til Salling Group. Salling er danskt félag sem á lágvöruverðskeðjuna Netto sem starfrækir nú þegar 386 verslanir í Póllandi. Financial Times segir frá .
Eftir söluna mun Tesco einungis eiga um 19 verslanir í Póllandi sem fyrirtækið hyggst einnig selja aðskilið frá sölunni til Salling.
Dave Lewis, forstjóri Tesco, sagði að „markaðsaðstæður“ í Pólandi hafi leitt til þess að pólskar verslanir hafi skilað minni arðsemi en verslanir í Tékklandi, Ungverjalandi og Slóvakíu. Tesco mun nú einblína á þessar þjóðir þar sem markaðsstaða verslananna þar er sterkari og vaxtarmöguleikar meiri.
Sjá einnig: Veiran kostar Tesco 925 milljónir punda
Sala Tesco á verslunum í Póllandi er hluti af undanhaldi fyrirtækisins frá alþjóðlegum mörkuðum. Tesco seldi kínverska ríkisrekna fyrirtækinu China Resources Holdings sinn hlut í sameiginlegu framtaki fyrirtækjanna tveggja í Kína í febrúar síðastliðnum fyrir um 275 milljónir punda.