Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, vara­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til formanns eða annarra em­bætta innan Sjálf­stæðis­flokksins á komandi lands­fundi í febrúar.

Hún segist stolt af því að hafa verið vara­for­maður síðustu sjö ár og að hafa verið í for­ystu flokksins með Bjarna Bene­dikts­syni.

„Á þeim tíma­mótum sem flokkurinn er á núna er eðli­legt að þær raddir sem kallað hafa hæst á endur­nýjun fái tækifæri til þess að reyna sig og flokkurinn fái að velja nýja for­ystu. Ég sækist því ekki eftir for­mennsku eða öðru em­bætti á næsta lands­fundi,” skrifar Þór­dís.

„Ég tek þessa ákvörðun með hjartanu og á þessum tíma­mótum lít ég inn á við og spyr sjálfa mig hvernig ég geti best gert gagn. Þá er gott að vera um­kringd væntumþykju og kær­leika fjöl­skyldu og vina. Börnin mín og eigin­manns sem jarð­tengja mig, mömmu og pabba, bræður, mág­konur, tengda­for­eldra, frænkur, frændur og vini,” bætir Þór­dís við.

Hún segist hlakka til þess að vera óbreyttur þing­maður á eigin for­sendum og hluti af liði.

„Í öflugum þing­flokki með nýju og framúr­skarandi fólki sem hlakkar til að spreyta sig og vaxa í nýju hlut­verki. Ég hlakka til að vera frjálsari, fá meiri tíma til að lesa bækur og skrifa, rækta það að hafa skyn­bragð og skilning á því sem er að gerast í kringum okkur, og veldur mér raun­veru­legum áhyggjum.

Því miður grunar mig að það sé allt miklu stærra en einungis innan­landsmál, hvað þá innan­flokksmál,” skrifar Þór­dís.

Í færslunni segist Þórdís lofa því að leggja sig fram við að hlusta, læra og nýta dómgreind sína og hugmyndir í samræmi við eigin samvisku en ávallt með þeim hætti að heildarhagsmunir samfélagsins ráði för.

Hægt er að lesa færsluna í heild hér að neðan.