Forsvarsmenn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar lífeyrissjóðs, tveir stærstu hluthafar Festi, kjósa að tjá sig ekki nánar um afstöðu sína um framboð Þórðar Más Jóhannessonar í stjórn Festi fyrir aðalfund smásölusamstæðunnar sem fer fram á morgun.
Tilnefningarnefnd Festi lagði til fyrir rúmum mánuði að Þórður Már Jóhannesson, fyrrum stjórnarformaður félagsins, verði kjörinn aftur í stjórn félagsins í stað Magnúsar Júlíussonar sem gefur ekki kost á sér til endurkjörs.
Bæði LSR og Brú lýstu yfir óánægju með tilnefningu Þórðar Más yfir í svari við fyrirspurn Heimildarinnar. Forsvarsmenn Brúar sögðust mótfallnir því að hann myndi taka aftur sæti í stjórn Festi.
LSR lýsti yfir vonbrigðum sínum með störf tilnefningarnefndar. LSR vísaði í eigendastefnu sína þar sem fram kemur að við kosningu stjórnarmanna sé litið til þess að stjórnarmenn hafi ekki sýnt af sér hegðun sem kann að rýra traust þeirra og trúverðugleika. Jafnframt vísaði LSR í ramma í skýrslu tilnefningarnefndar um hæfni, reynslu og þekkingu, nánar tiltekið flokk yfir „Metnað, siðferði og samfélagsvitund“.
„Í ljósi þessara áherslna í eigendastefnu LSR lýsir stjórn sjóðsins yfir vonbrigðum með störf tilnefningarnefndar Festis. Svo virðist sem nefndin hafi ekki tekið sérstakt tillit til nokkurra af þeim meginatriðum sem hún þó í skýrslu sinni telur upp að hafi verið höfð til hliðsjónar við tilnefningu sína,“ sagði LSR í svari sínu við fyrirspurn Heimildarinnar.
Viðskiptablaðið óskaði eftir því í fyrirspurn að fá nánari skýringu á afstöðu lífeyrissjóðanna á tilnefningu Þórðar Más. Spurt var hvaða hegðun hann á að hafa sýnt af sér sem rýrir traust hans og trúverðugleika. Jafnframt var spurt um hvort tekið væri tillit til þess við framfylgd hluthafastefnu sjóðanna þegar mál, sem köstuðu rýrð á traust og trúverðugleika frambjóðenda, eru felld niður eftir rannsókn lögreglu eða annars ákæruvalds.
Ekki barst svar frá Brú lífeyrissjóði en Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn á sjóðinn á mánudaginn í síðustu viku, 26. febrúar.
Í svari LSR við fyrirspurn Viðskiptablaðsins vísaði sjóðurinn einfaldlega í eigendastefnu sína.
„Ásýnd, orðspor traust og trúverðugleiki eru sjálfstæð hæfisskilyrði óháð öðru. LSR mun ekki fjalla um persónuleg málefni einstakra frambjóðenda til stjórnar í þeim félögum sem sjóðurinn fjárfestir í,“ segir í svari LSR. Þess má geta að hvergi er minnst á ásýnd eða orðspor í eigendastefnu sjóðsins.
Í umfjöllun Morgunblaðsins í morgun kemur fram að samkvæmt heimildum blaðsins átti Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, samtöl við nokkra aðila, þar á meðal Guðjón Auðunsson, og hvatti þá til að bjóða sig fram í þeim tilgangi að koma í veg fyrri kjör Þórðar Más.