Lagardère Travel Retail sem rekur fjölda veitingastaða á Keflavíkurflugvelli tapaði 56 milljónum á síðasta ári og 278 milljónum árið 2020 eða samanlagt 334 milljónum Covid árin 2020 og 2021. Rekstrartekjur félagsins námu ríflega milljarði króna á síðasta ári og 644 milljónum árið 2020. Umsvifin voru mest árið 2018 þegar félagið velti tæplega 4,2 milljörðum króna og þá velti félagið 3,2 milljörðum árið 2019.
Lagardère rekur staði á borð við Loksins Bar, Segafredo, Kvikk Café og Mathús í Leifsstöð. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 4 milljónir króna miðað við 180 milljóna EBITDA rekstrartap árið 2020. 33 stöðugildi voru hjá fyrirtækinu árinu 2021 en 54 árið 2020. Laun og launatengd gjöld námu 318 samanborið við 391 milljónir árið 2020. Um 200 manns unnu hjá fyrirtækinu þegar mest var.
Í skýrslu stjórnar með ársreikningi félagsins er bent á að áhrif Covid-19 hafi mjög litað reksturinn á síðasta ári. „Umferð um Keflavíkurflugvöll var lítil á fyrri helmingi ársins, en upp úr miðju ári fór umferð að aukast með jákvæðari horfum í rekstri félagsins. Heildar farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll var um 2,2 milljónir farþega samanborið við 7,3 milljónir farþega árið 2019, sem var seinasta eðlilega rekstrarár flugvallarins fyrir COVID19 heimsfaraldurinn. Nemur fækkunin 70% á milli þessara tveggja ára,“ segir í skýrslu stjórnar.
Franski ferðaþjónusturisinn Lagardère á fyrirtækið að fullu. Íslensku hluthafar fóru með 40% hlut í félaginu fram til ársins 2020 þegar þeir seldu hlut sinn til franska móðurfélags Lagardère á um 440 milljónir króna seldu líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma.
Félagið hafi nýtt sér úrræði stjórnvalda og fengið 17,5 milljónir í tekjufallsstyrk og 25 milljónir í viðspyrnustyrk á árinu 2021. Auk þess hafi Isavia komið til móts við erfiðleika leigjenda í Leifsstöð en „án þess stuðnings væri ástand fyrirtækisins mun verra en raun ber vitni,“ segir í skýrslu stjórnar.
Þá segir í skýrslunni, sem undirrituð er þann 12. júlí, að ljóst sé að árið 2022 verði gott rekstrarár fyrir félagið. „Flugumferð hefur vaxið hratt það sem af er ári og er nú nærri því sem þekktist áður en COVID-19 faraldurinn lokaði að mestu fyrir flugumferð til og frá landinu. Helstu áskoranir í rekstri félagsins á komandi ári eru að skala upp starfsemi félagsins og viðhalda góðu þjónustustigi við þá fjölmörgu farþega sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það hefur verið gríðarlega erfitt að ráða starfsmenn og hefur fyrirtækið þurft að sækja út fyrir landsteinana í leit að starfsfólki,“ segir í skýrslunni.