Donald Trump Bandaríkjaforseti er talinn ætla að draga úr áhrifum tollaaðgerða sinna á bílaiðnaðinn og koma þannig í veg fyrir að tollar á bíla sem framleiddir eru erlendis staflist ofan á aðra tolla sem hann hefur þegar lagt á.

Hann er jafnframt talinn ætla að draga úr álögum á innflutta íhluti í bílaframleiðslu, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal.

Ráðstöfunin myndi hafa í för með sér að bílaframleiðendur sem standa frammi fyrir nýjum tollum komast hjá því að greiða tolla á innflutt stál og ál. Til stendur að breytingin verði afturvirk og bílaframleiðendur geti því fengið endurgreiðslu fyrir slík tolla sem þeir hafa þegar greitt.

Í greininni er bent á að 25% tollar á bíla sem framleiddir eru erlendis hafi tekið gildi í byrjun mánaðarins.

Gert er ráð fyrir að Trump tilkynni um ákvörðunina á fjöldasamkomu í Detroit í kvöld. 100 dagar eru síðan hann tók við embætti forseta.

Ríkisstjórnin hyggst gefa þau rök fyrir breytingunni að bílaframleiðendum fái svigrúm til að færa stærri hluta virðiskeðjunnar aftur til Bandaríkjanna og styðja við bílafyrirtækin til skemmri tíma.

Greinandi Morgan Stanley hafði spáð því að ofangreindur 25% tollur myndi hækka meðalverð á bíl í Bandaríkjunum um 6 þúsund dali, eða um 770 þúsund krónur, sem samsvarar 10-12% hækkun.