Donald Trump Bandaríkjaforseti virtist kalla eftir því í gær að bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs myndi skipta út aðalhagfræðingi sínum vegna greininga sinna um tollamál.

Trump sagði á Truth Social samfélagmiðliðnum að David Solomon, forstjóri Goldman, „ætti að fara og ná sér í nýjan hagfræðing“ þar sem bankinn gaf út „slæma spá fyrir löngu síðan“ um markaði og tolla. Forsetinn hélt því fram að tollar hefðu ekki leitt til aukinnar verðbólgu eða annarra vandamála í bandaríska hagkerfinu.

Trump velti jafnframt fyrir sér hvort Solomon sjálfur ætti einfaldlega snúa sér alfarið að því að vera plötusnúður. Solomon tók að sér örfá verkefni sem plötusnúður samhliða starfi sínu sem forstjóri Goldman Sachs fyrir nokkrum árum en hætti því að lokum vegna fjölmiðlaumfjöllunar um þetta áhugamál sitt.

Samkvæmt umfjöllun The Wall Street Journal er hagfræðingurinn sem um ræðir Jan Hatzius, aðalhagfræðingur Goldman Sachs. Hann er sagður þekktur fyrir að spá því árið 2008 að aukin vanskil á húsnæðislánum gætu leitt til alvarlegrar efnahagskreppu.

Hatzius og aðrir í teymi hans eru meðal margra hagfræðinga sem hafa spáð því að tollastefna bandarísku ríkisstjórnarinnar myndi hafa í för með sér veikari vinnumarkað, leiða til aukinnar verðbólgu og draga úr hagvexti.

David Solomon, forstjóri Goldman Sachs.
© epa (epa)

Hagfræðideild Goldman birti greiningu á sunnudaginn sem gaf til kynna að neytendur hefðu borið 22% af kostnaði vegna tolla út júní síðastliðinn, en bankinn gerir ráð fyrir að það hlutfall muni hækka upp í 67%.

Greining Goldman er í samræmi við spár annarra hagfræðinga, að því er segir í frétt WSJ. Bandarísk fyrirtæki hafi tekið á sig stóran hluta af kostnaði vegna tolla hingað til.

Trump sagði í téðri færslu að neytendur væru að mestu leti ekki að borga fyrir tolla, heldur væru það „að mestu leyti fyrirtæki og stjórnvöld, mörg þeirra erlend“.