Liz Truss forsætisráðherra hefur rekið Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra, úr embætti. Þar að auki ætlar Truss að taka U-beygju í ríkisfjármálum og hækka fyrirtækjaskatt, að því er kemur fram í grein BBC.

Þá var greint frá því í gær að háttsettir Íhaldsmenn ættu í viðræðum um að skipta Truss út fyrir Rishi Sunak og Penny Mordaunt.

Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra kynnti umfangsmiklar ófjármagnaðar skattalækkanir í síðasta mánuði, sem áttu að kosta 45 milljarða punda. Í kjölfar tilkynningar ráðherrans hrundi gengi pundsins. Kwarteng og ríkisstjórn Truss tóku síðan U-beygju í byrjun mánaðar þar sem hætt var við umdeildustu skattalækkunina. Tillagan fól í sér að taka út hæsta skattþrep tekjuskatts í landinu, 45% skatt á tekjur yfir 150 þúsund pund eða meira á ári, eða sem nemur rúmum 24 milljónum króna.

Kwarteng fer í sögubækurnar sem skammlífasti fjármálaráðherra Bretlands sem ekki hefur bókstaflega látið lífið í embætti.

Kwarteng var fjórði fjármálaráðherra Bretlands á rúmlega þremur árum. Sajid Javid gegndi embættinu í 204 daga, frá júlí 2019 til febrúar 2020. Rishi Sunak tók þá við sem fjármálaráðherra og gegndi embættinu þar til hann lét af störfum í byrjun júlí á þessu ári. Þá tók Nadhim Zahawi við og var fjármálaráðherra í tvo mánuði áður en Kwasi Kwarteng tók við.