Flugfélagið Cathay Pacific hefur aflýst tugum flugferða eftir að flugvél sem var á leið frá Zurich til Hong Kong neyddist til að snúa við vegna bilunar í hreyfli. Flugvélin er af gerðinni Airbus A350 en Cathay Pacific er með 48 slíkar vélar.

Fyrirtækið segist nú vera að skoða allar þær flugvélar en þær innihalda Trent XWB-97 hreyfla sem framleiddar eru af Rolls-Royce.

Flugfélagið Cathay Pacific hefur aflýst tugum flugferða eftir að flugvél sem var á leið frá Zurich til Hong Kong neyddist til að snúa við vegna bilunar í hreyfli. Flugvélin er af gerðinni Airbus A350 en Cathay Pacific er með 48 slíkar vélar.

Fyrirtækið segist nú vera að skoða allar þær flugvélar en þær innihalda Trent XWB-97 hreyfla sem framleiddar eru af Rolls-Royce.

Frá því í gær hefur Cathay Pacific aflýst um 70 flugferðum, þar á meðal flugferðum sem tengja Hong Kong við Sydney, Singapúr, Bangkok, Tókýó, Seúl og Taipei. Fyrirtækið segir að röskunin gæti staðið yfir fram yfir helgi.

„Hjá Cathay er öryggi viðskiptavina okkar í fyrirrúmi þegar kemur að öllum ákvörðunum sem við tökum. Við biðjumst innilegrar velvirðingar á óþægindunum og þökkum þolinmæði og skilning viðskiptavina okkar,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Cathay Pacific tók við fyrstu Airbus A350-flugvélinni sinni árið 2016 en vélarnar þjónusta einnig flug til Evrópu og Norður-Ameríku.