Hlíðarfótur ehf., sem vinnur að uppbyggingu íbúða að Hlíðarenda í Reykjavík, hagnaðist um ríflega tvo milljarða króna á síðasta rekstrarári. Hjartað í starfsemi Valsfélaganna, Hlíðarendi ses., virðist undanþegið greiðslu tekjuskatts.
Tekjur Hlíðarfótar á síðasta ári námu 9.569 milljónum króna en kostnaðarverð íbúðanna hafði verið 7.069 milljónir. Í ársbyrjun átti félagið kröfur upp á 2.668 milljónir króna vegna þegar seldra íbúða. Skuldir félagsins námu 4.264 milljónum í ársbyrjun 2020 en höfðu lækkað í 526 milljónir í árslok. Tekjuskattsskuldbinding félagsins nam hálfum milljarði króna í ársbyrjun þessa árs.
Í byrjun þessa árs hafði félagið selt um 90% af þeim íbúðum sem boðnar höfðu verið til sölu og salan hefur áfram verið góð á árinu. Faraldurinn hafði nokkur áhrif á framkvæmdatíma, sölu og afhendingu en lítil áhrif á fjárhagslega stöðu félagsins. Gert er ráð fyrir því að sölu og uppbyggingu íbúða á vegum félagsins ljúki á þessu ári.
Á aðalfundi var lagt til að rétt tæpir tveir milljarðar króna yrðu greiddir í arð til hluthafanna tveggja en félagið er í jafnri eigu Valsmanna hf. og F reitar ehf. Þrjú félög eiga hvert fjórðungshlut í F reit en það eru Vogabakki ehf., endanlegir eigendur þar eru Árni Hauksson, Friðrik Hallbjörn Karlsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Konkrít ehf. í eigu Helen Neely og Kaðall ehf. í jafnri eigu Hjartar Gíslasonar og Maríu Bjarnadóttur. ET Sjón ehf., í eigu Eiríks Ingvars Þorgeirssonar, á 21,7% í F reit og það sem út af stendur er í eigu Ingunnar Erlu Eiríksdóttur gegnum Gunu ehf.
Áhrif Hlíðarfótar á Valsmenn hf. voru skiljanlega jákvæð en félagið hagnaðist um 976 milljónir á síðasta ári. Ekki kom til greiðslu tekjuskatts af hálfu þess sökum ónotaðs skattalegs taps sem það átti. Eignir félagsins námu 1.778 milljónum í byrjun þessa árs og var eigið fé félagsins 1.694 milljónir. Skuldir námu tæpum 84 milljónum og voru þær við tengda aðila, það er Hlíðarfót og Knattspyrnufélagið Val. Alls styrkti félagið Val um rúmar 27 milljónir í fyrra og er það tæpum sjö milljónum meira en árið á undan.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .