Ýmsar viðbætur við samfélagsmiðilinn Twitter voru kynntar til leiks í gær. Þar á meðal er „Super Follow“ tólið sem gerir notendum kleift að rukka fylgjendur sína fyrir tiltekið efni. Breytingarnar eru sagðar hluti af stefnubreytingu hjá Twitter sem hafi meðal annars falið í sér kaupin á íslenska fyrirtækinu Ueno í byrjun árs .
Samfélagsmiðilinn hefur lítið breyst á undanförnum árum að því undanskildu að fjöldi leyfðra stafa tvöfaldaðist árið 2017. Nú sé þó von á þjónustu fyrir hljóðspjöll (e. audio chat), vettvangi fyrir höfunda fréttabréfa ásamt því að notendum gefst kostur að stjórna samtölum sínum betur. Einnig verður opnað á „samfélög“ (e. Communities) þar sem notendur geta átt samskipti í hópum.
Tilhugsunin um að Twitter breytist yfir höfuð er sögð óraunveruleg af Kayvon Beykpour, yfirmanni neytendavara hjá Twitter, í frétt NYT . Hann segir Twitter enn eiga mjög mikið inni þrátt fyrir virði félagsins og áhrif þess í heiminum í dag.
Breytingarnar eru orðnar löngu tímabærar að mati Jack Dorsey, forstjóra Twitter. „Við erum hæg, við erum ekki skapandi og okkur er ekki treyst,“ sagði Dorsey á viðburði fyrir fjárfesta og greiningaraðila í gær.
Til að bregðast við hægum breytingum fór Twitter á yfirtökufyllerí og keypti ríflega tuttugu fyrirtæki á undanförnum árum. Um er að ræða fyrirtæki sem sérhæfa sig í auglýsingum á snjallsímum, myndböndum á samfélagsmiðlum og hlaðvörpum ásamt þjónustufyrirtækinu Ueno.
„Eftir að hafa unnið með Twitter sem umboðsaðili í meira en ár, varð ég vitni að breytingunni í rauntíma. Og ég vildi verða hluti af henni. Tilkynning gærdagsins sýndi meðal annars skuldbindingu okkar við notendur sem gefa út sitt eigið efni og getu þeirra til að framfleyta sér. Ég gæti ekki verið spenntari,“ skrifaði Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, í færslu á Twitter í dag.
Notendur Twitter eru 192 milljónir talsins. Á næstu þremur árum vonast fyrirtækið til að fjölga notendum sínum um 64%, hraða útgáfum á nýjum viðbótum við samfélagsmiðlinn og tvöfalda árlegar tekjur. Hlutabréf Twitter hafa hækkað um meira en 4% í dag.