Þýska fjármálatæknifyrirtækið Wirecard tilkynnti fyrr í dag að um 1,9 milljarðar evra, eða um 292 milljarðar íslenskra króna, hafi týnst í bókhaldi þess. Upphæðin er um fjórðungur af efnahagsreikningi fyrirtækisins. Financial Times segir frá .
Endurskoðandi fyrirtækisins, EY, neitaði að skrifa undir ársreikning Wirecard, þar sem hann sagðist ekki geta staðfest tilvist peninganna. EY tjáði fjártæknifyrirtækinu að það væri merki um að fjárhaldsmaður (e. trustee) bankareikninga þess hafi reynt að „afvegaleiða endurskoðandann“ og gæti hafa útvegað „falsaða sjóðsstöðu“.
Wirecard, sem hefur höfuðstöðvar í Munchen, sagði í tilkynningu að það „ynni af ákafa með endurskoðendum til þess að fá útskýringu á málinu“. Fjártæknifyrirtækið meðhöndlar tugi milljarða evra færslur af kredit- og debetkortum á hverju ári en félagið er hluti af netkerfi Visa og Mastercard.
Ef Wirecard birtir ekki endurskoðaðan ársreikning á morgun, þá mun það brjóta skilmála 1,75 milljarða evra lánalínu (e. revolving credit facility) frá bönkunum Commerzbank, ING, ABN Amro og LBBW ásamt öðrum lánveitendum. Ef skilmálarnir brotna geta bankarnir rift lánunum.
Markaðsvirði Wirecard rauk upp í 24 milljarða evra fyrir tveimur árum þegar það var tekið inn í þýsku Dax 30 vísitöluna. Hlutabréfaverð félagsins lækkuðu um 60% í dag í kjölfar tilkynningarinnar. Eftir lækkunina er markaðsvirði Wirecard minna en fjórir milljarðar evra.
Blésu upp sölutölur
FT greindi frá því október að starfsfólk Wirecard virðist hafa blásið upp sölu- og hagnaðartölur dótturfyrirtækja Wirecard í Dubai og Dublin og afvegaleitt EY, endurskoðanda sinn, í rúman áratug.
Í desember greindi FT frá því að svokallaðir geymslureikningar (e. escrow accounts) Wirecard og annarra fjárhaldsmanna hafi verið notaðir til þess að ýta undir sjóðsstöðu fyrirtækisins.
DWS, sem er stærsta eignarstýringarfyrirtæki Þýskalands og einn stærsti hluthafinn í Wirecard, segist vera að skoða lagalegar aðgerðir gegn fjártæknifyrirtækinu.
Markus Braun, forstjóri Wirecard, sagði í tilkynningu í dag að „fyrri staðfestingar frá bönkum væru ekki lengur viðurkenndar af endurskoðandanum“ og að „það væri óljóst hvort sviksamlegar færslur sem skaða Wirecard hafi átt sér stað“.
Wirecard hefur frestað útgáfu ársreiknings 2019 í þrígang síðan í mars en ítrekað tjáð fjárfestum að fyrirtækið búist við „fyrirvara í áritun endurskoðanda“.
KPMG tókst ekki að leysa flækjuna
Fyrirtækið fékk KPMG til að framkvæma sérstaka endurskoðun og yfirfara reikningshald þess í framhaldi af ábendingum uppljóstrara. Sex mánaða endurskoðun KPMG leysti ekki spurningar um reikningshald Wirecard. Skoðunarmenn (e. forensic examiners) gátu ekki rakið færslur sem mynduðu bróðurpartinn af hagnaði Wirecard á árunum 2016 til 2018, samkvæmt niðurstöðum sem birtar voru í lok apríl.
Sjóðsstreymi fyrirtækisins rann að stórum hluta inn á geymslureikninga undir stjórn Wirecard og annarra eigenda í umsjón fjárhaldsmanns. KPMG sagðist ekki geta staðfest tilveru eins milljarðs evra af handbæru fé á slíkum reikningum og að fjárhaldsmaðurinn hafi slitið sambandi sínu við Wirecard um svipað leyti og rannsókn þess hófst.
Wirecard horfir nú fram á nokkrar rannsóknir varðandi reikningshald fyrirtækisins, upplýsingar til fjárfesta og viðskipti Braun með hlutabréf félagsins.
Vogunarsjóðir græða á skortsölu
Ýmsir vogunarsjóðir hafa skortselt hlutabréf fjártæknifyrirtækisins vegna efasemda um reikningshald þess. Hrun hlutabréfa Wirecard hefur skilað átta sjóðum, þar á meðal TCI Fund Management og Marshall Wace, allt að 740 milljónum evra hagnaði, samkvæmt gagnaveitunni Breakout Point.
Wirecard hefur ávallt neitað sök en fyrirtækið hefur eytt meira en ári í að draga úr efasemdum um bókhald þess eftir að FT hóf að fjalla um falsanir skjala í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Asíu. Wirecard hefur lögsótt FT vegna fréttaflutnings og staðhæft að fjölmiðillinn hafi brotið gegn fyrirtækinu með uppljóstrunum á atvinnuleyndarmálum, sem FT hafnar alfarið.