Heildareftirspurn var verulega vanmetin í gögnum Bankasýslunnar og ráðgjafa hennar í upphafi fundar þar sem ákvörðun var tekin um verðið.
Í reynd höfðu borist tilboð fyrir um tvöfaldri grunnstærð útboðsins að meðtaldri stækkun og 2,3-faldri án hennar á genginu 118, sem er litlu minna en á genginu 117 sem varð niðurstaðan.
Í Excel-skjali sem Bankasýslan og söluráðgjafar hennar höfðu tekið saman þegar fundarhöld um leiðbeinandi lokaverð hófust að kvöldi þriðjudagsins 22. mars var eftirspurnin hins vegar aðeins 1,7-föld á 117 og 1,5-föld á 118, bæði miðað við stækkað útboð, en á því skjali voru verulegir annmarkar. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna sem birt var í morgun.
Sendu Ríkisendurskoðun rangt skjal
Samkvæmt því var umframeftirspurn í stækkuðu útboði á genginu 118 vanmetin um helming. Á genginu 117 og miðað við stækkað útboð var vanmatið um 36%, eða 70% umframeftirspurn í stað 110%.
Á þeim klukkutíma sem fundurinn stóð yfir voru villurnar svo leiðréttar svoleiðis að við ákvörðunartöku laust eftir hálf níu að kvöldi bjuggu fundarmenn yfir réttum upplýsingum, að því er Íslandsbanki áréttar í umsögn sinni um skýrsluna.
Bankasýslan hafði upphaflega skilað óleiðrétta skjalinu til Ríkisendurskoðunar með þeim formerkjum að um hið endanlega gagn sem gengið var út frá við ákvörðunartökuna væri að ræða, en skjalið hafði hún sjálf fengið frá Íslandsbanka.
Eftir þessu tók bankinn hins vegar í umsagnarferli um skýrsluna nú í lok október og benti Ríkisendurskoðun á og kom réttu skjali til skila.
Formvillur vógu þyngst
Þeir annmarkar við skjalið sem til misræmisins leiddu eru fjórir, en þyngst vó sú villa að mörg hinna innsendu tilboða voru færð inn á röngu formi, „ýmist með erlendri kommusetningu eða fjárhæð skilgreindri sem texta“ eins og segir í skýrslunni. Varð þetta til þess að fjárhæðir þeirra töldu ekki með í samanlagðri heildarsummu tilboða, alls um 20 milljarðar króna.
Samlagning fjárhæðanna var svo raunar önnur meinsemdin, þar sem tilboðin voru ekki lögð inn sem fjárhæðir heldur fjöldi hluta á tilteknu verði. Því hefði þurft að leggja saman heildarfjölda hluta sem boðið var í á hverju verði fyrir sig, og margfalda svo með því verði. Þau tilboð sem ekki tilgreindu hámarksverð voru einnig ranglega skráð á genginu 117.
Loks var hlutfall tilboða af útboðsstærð við öll verð reiknað sem hlutfall boðinnar heildarfjárhæðar af útboðsstærðinni við verðið 117, frekar en að miðað væri við sama verð.
Á móti voru hins vegar einnig í upphaflega skjalinu tvö tilboð tvítalin upp á samtals 15 milljarða króna.
Ríkisendurskoðun kemst í skýrslunni að þeirri niðurstöðu að svör Bankasýslunnar „[staðfesti] að stofnunin var ekki meðvituð um hver heildareftirspurn fjárfesta var þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin,“ þrátt fyrir að þar komi einnig fram að athugasemdir hafi borist frá Íslandsbanka „þess efnis að ákvörðunin hafi byggt á gögnum sem fyrir lágu kl. 20:36,“ eða við lok fundarins þegar villurnar höfðu verið leiðréttar.