Bandaríska fjarskipta- og gagnaversfyrirtækið Modularity og Borealis Data Center hafa gengið til samstarfs um verkefni sem felur í sér að leggja háhraðagagnatengingar neðansjávar fyrir alþjóðlega gagnaflutninga til og frá Íslandi og bjóða upp á gagnaversþjónustu fyrir stór verkefni á sviði gervigreindar.
Í fréttatilkynningu segir að með lagningu neðansjávarfjarskiptakerfa megi efa alþjóðlegar gagnatengingar á milli Íslands, Norður-Ameríku og Evrópu. Áætlað er að fyrsti áfangi verkefnisins verði tekinn í notkun árið 2026.
„Verkefnið er til þess fallið að efla verulega gagnatengingar milli Íslands og Bandaríkjanna auk þess að bæta tengingar landsins við meginland Evrópu,“ segir í fréttatilkynningu.
„Samstarfið er hluti af áætlun sem miðar að því að mæta auknum kröfum um sjálfbæra stafræna innviði og styðja við þróun gervigreindar- og vélgreindarlíkana á alþjóðlegum markaði.“
Í tilkynningunni segir að samstarfið muni hafa jákvæð áhrif á þróun stafrænnar tækni og upplýsingatækniinnviða á Íslandi auk þess að skapa háframleiðni og hátæknistörf hér á landi.
Með því sé verið að styrkja samkeppnishæfni Íslands á sviði stafrænnar þjónustu og efla hugverkainnviða enn frekar sem útflutningsstoð.
„Verkefnið mun stuðla að því að Ísland verði einn af lykilstöðum fyrir háþróaðar gervigreindar- og upplýsingatæknilausnir á alþjóðlegum vettvangi og leiða til þess að íslenskur gagnaversiðnaður mun áfram stuðla að útflutningsvexti og tækniþróun á Íslandi,“ segir Björn Brynjúlfsson, forstjór Borealis Data Center.
Borealis Data Center rekur gagnaver á Blönduósi, í Reykjanesbæ, Reykjavík og á Finnlandi.
Haft er eftir Bill Barney, meðstofnanda og stjórnarformanni Modularty, sem sérhæfir sig m.a. í þróun neðansjávar fjarskipta- og gagnastrengja, að hið svala loftslag á Íslandi bjóði upp á skilvirka kælingu fyrir gagnaver sem dragi verulega úr orkunotkun og kolefnisfótspori slíkra verkefna.
„Með því að nýta þessa einstöku kosti má byggja háþróaða gervigreindarmiðstöð á Íslandi sem verður fyrirmynd á heimsvísu þegar kemur að orkunýtni og sjálfbærni.