Hlutabréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum hefur á ný fengið kraft frá hópi fjárfesta sem óttast ekki sveiflur – heldur nýtir þær. Ungir fjárfestar, margir með litla reynslu af fyrra hruni, hafa á síðustu misserum keypt „dýfuna“ þegar markaðir hafa dalað og stuðlað þannig að skjótum viðsnúningum í verði, samkvæmt The Wall Street Journal.
Þegar markaðir féllu í vor í kjölfar tollaóvissu streymdi fjöldi minni fjárfesta inn á markaðinn og keypti á lægra verði. Sama mynstur sást í apríl eftir svokallaðan „frelsisdag“ Donalds Trump forseta, þegar S&P 500 féll um 5% tvo daga í röð.
Samkvæmt gögnum JPMorgan keyptu einstaklingar metfjárhæð hlutabréfa og bandarískir hlutabréfamarkaðir skráðu 31 milljarðs dala innstreymi á einni viku, þrátt fyrir miklar sveiflur.
Þessi nýja kynslóð hefur ekki lifað í gegnum djúp og langvarandi hrun á borð við fjármálakreppuna 2008 eða Dot-com sprunguna um aldamót.
Hún hóf fjárfestingar á tímum afar lágra vaxta og nánast samfelldrar hækkunar hlutabréfa. Upphaflegur árangur styrkti trú þeirra á langtímahugsun og aukinni áhættu.
Árið 2022 reyndi á þessa þrautseigju þegar hækkandi vextir leiddu til 19% lækkunar á S&P 500, sú mesta síðan 2008.
En í stað þess að selja streymdu 27 milljarðar dala í bandaríska verðbréfamarkaði og þeir sem héldu út nutu ávinnings af tveimur bestu árum vísitölunnar í aldarfjórðung.
Viðmót sem minnir á spilavíti
Hlutfall hlutabréfa af fjárhagslegum eignum bandarískra heimila hefur náð sögulegu hámarki, eða 36% á fyrsta ársfjórðungi, samkvæmt Ned Davis Research.
Fjöldi „401(k) milljónamæringa“, þ.e. einstaklinga með yfir milljón dollara í eftirlaunasparnaði – er nú meiri en nokkru sinni, 537.000 samkvæmt Fidelity.
Þessi fjárhagslega velgengni hefur ýtt undir trú margra að sveiflur séu einfaldlega hluti af leiknum. „Þú byrjar að líta á þetta sem eðlilegt – ég get melt tímabundna lægð,“ segir markaðsveteraninn Jim Paulsen.
Á sama tíma hefur viðhorf til fjárhættuspila breyst og tæknin gert viðskipti bæði ódýrari og aðgengilegri. Sumir miðlarar hafa jafnvel gert leiki í kringum fjárfestingar, með viðmótum sem minna á spilavíti, auk þess að bjóða áhættusöm afleiðuviðskipti.
Almennir fjárfestar mynda nú um fimmtung viðskipta á hlutabréfamarkaði og um 20% af allri valréttarvirkni, hærra hlutfall en á hápunkti jarm-bréfaæðisins árið 021.
Markaðirnir njóta þannig stuðnings frá nýrri kynslóð fjárfesta sem lítur á lægðir ekki sem ógn, heldur sem tækifæri – viðhorf sem kann að halda áfram að móta verðþróun næstu árin.