Japanska tískufyrirtækið Uniqlo hefur kært kínverska fyrirtækið Shein fyrir að selja eftirlíkingar af vinsælu Mary Poppins töskunni sinni.

Málið hefur verið höfðað í Tókýó en Uniqlo heldur því fram að töskurnar frá Shein séu mjög svipaðar töskum Uniqlo og gæti það dregið úr trausti viðskiptavina á vörumerkinu.

Taskan frá Uniqlo hefur slegið í gegn á netinu en áhrifavaldar á samfélagsmiðlum hafa birt myndbönd sem sýna hversu mikið kemst í töskuna. Einn notandi sýndi hvernig hún náði að koma fyrir fartölvu, vatnsflösku, kerti og jafnvel lítilli ryksugu og verkfæratösku.

Shein hefur ekki enn svarað fyrirspurnum frá fréttamiðlinum BBC en Uniqlo hefur krafist þess að Shein hætti tafarlaust að selja sína útgáfu af töskunni. Fyrirtæki hefur auk þess farið fram á bætur fyrir því tjóni sem það hefur orðið fyrir.

Töskunni hefur verið líkt við töfratöskuna sem Mary Poppins bar í söngleiknum frá árinu 1964 og dró meðal annars hattastand og lampaskerm úr.

Kínverska fyrirtækið Shein var stofnað árið 2008 og hagnaðist gríðarlega þegar heimsfaraldur skall á og netverslun óx samhliða markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Samkvæmt heimasíðu Shein starfa rúmlega 10 þúsund manns hjá fyrirtækinu sem selur vörur sínar til meira en 150 landa.