Gengi bréfa hjá 20 af 22 félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar lækkaði í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 1,7% og stendur nú í 2.397,55 stigum. Vísitalan hefur ekki verið lægri síðan í byrjun desember árið 2020, og hefur lækkað um tæp 15% síðastliðinn mánuðinn.

Heildarvelta á markaði nam 3,9 milljörðum króna. Þar af var mesta veltan með bréf Arion banka sem lækkuðu jafnframt mest allra félaga, um 2,6% í 930 milljóna viðskiptum.

Gengi bréfa Íslandsbanka lækkaði um 2,3% í 350 milljóna króna viðskiptum. Stendur gengið nú í 117 krónum, sem er jafnt söluverðinu í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í bankanum.

Fasteignafélagið Reginn lækkaði um 2,1% í 100 milljóna veltu, Festi um 2,07%, Vís um tæp tvö prósent og Sjóvá um 1,8%.

Á First-North markaðnum lækkaði flugfélagið Play um 3,2% og stendur gengi félagsins nú í 15 krónum. Gengi Play hefur aldrei verið lægra frá skráningu og er nú 16,7% undir útboðsgengi fyrir almenna fjárfesta í frumútboði flugfélagsins í júní 2021.