Velta í byggingariðnaði eykst enn og hafa ekki fleiri starfað í greininni frá árinu 2008. Nýjar íbúðir eru enn að rísa með svipuðum hraða og í fyrra en íbúðum á fyrsta byggingarstigi fjölgar þó ekki eins og síðustu ár.
Samkvæmt Hagsjá Landsbankans eru þó vísbendingar um að fleiri íbúðir í byggingu standi ókláraðar en áður.
Tæplega tvö þúsund nýjar íbúðir hafa risið á Íslandi á árinu sem er álíka uppbygging og í fyrra. Mun það þó vera nokkuð færri íbúðir en árin þar á undan og íbúðauppbygging er nokkuð langt frá því að vera í hámarki.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun spáir því að 2.843 nýjar íbúðir verði fullbúnar á árinu, álíka margar og í fyrra, og 2.814 á næsta ári, samtals 5.657.
Vísbendingar eru þó um að það sé farið að hægja á en HMS spáir því að nýjar íbúðir verði mun færri árið 2025 en nú, 1.983 talsins.
Samkvæmt nýjustu talningu HMS fóru færri ný byggingarverkefni af stað milli síðustu tveggja talninga en áður. Framkvæmdir hófust á 1.583 íbúðum milli talninga, þ. e. milli september á síðasta ári og mars á þessu ári.
Í septembertalningunni voru nýjar framkvæmdir 2.574 og í marstalningunni 2022 voru þær 2.687.
Íbúðum á öðru framvindustigi fækkar
Hefur íbúðum á síðari byggingarstigum fjölgað meira en þeim á fyrri stigum sem gefur til kynna að verktakar setji í forgang að klára þau verkefni sem þegar eru hafin og hefjist síður handa við ný.
Íbúðum á fyrsta framvindustigi standa í stað milli talninga en þeim hefur vanalega fjölgað. Þá fækkar íbúðum á öðru framvindustigi.
Íbúðum á fjórða byggingarstigi hefur fjölgað mest og óvenjumargar íbúðir hafa haldist á því byggingarstigi frá síðustu talningu, í september.
Tekið er þó fram að íbúðum í byggingu hefur fjölgað sífellt milli talninga HMS. Þær voru 8% fleiri í mars en í september og 21% fleiri í mars í ár en í mars í fyrra.
Sú fjölgun skýrist þó ekki af auknum krafti í uppbyggingu heldur virðist meira um það en áður að framvinda í uppbyggingu íbúða standi í stað.
Þriðjungur starfsmanna innflutt vinnuafl
Samkvæmt virðisaukaskattskýrslum var velta í byggingariðnaði 17% meiri í mars og apríl á þessu ári en í sömu mánuðum í fyrra, á föstu verðlagi, og 36% meiri en í sömu mánuðum árið 2021. Munurinn milli ára er svipaður og verið hefur síðustu mánuði.
Alls starfa tæplega 19 þúsund manns í byggingariðnaði en alls ekki allir starfa við byggingu íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt Hagstofunni reiðir byggingarstarfsemi sig á aðfluttu vinnuafli en 34% starfsfólks í greininni eru innflytjendur.