Sjötíu prósent stjórnenda íslenskra fyrirtækja segja verðskrárhækkanir í kortunum. Aðeins átta prósent þeirra eru ekki á þeim buxunum að hækka verðskrár meðan rúmlega fimmtungur stjórnenda var hvorki sammála né ósammála því að verðskrá þeirra fyrirtækis myndi hækka. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun sem gerð var á vegum rannsóknafyrirtækisins Prósent. Nokkur umræða hefur átt sér stað um yfirvofandi verðhækkanir hér á landi og renna niðurstöður könnunarinnar stoðum undir að verðhækkanir séu yfirvofandi innan ýmissa geira hér á landi.
Frá öðrum ársfjórðungi ársins 2018 hefur Prósent ársfjórðungslega safnað upplýsingum frá stjórnendum íslenskra fyrirtækja um framtíðarhorfur. Byggja niðurstöður nýjustu könnunarinnar á svörum stjórnenda sem aflað var á fjórða ársfjórðungi ársins 2021. Til samanburðar voru 55% fyrirtækja á öðrum ársfjórðungi sama árs sammála því að verðskrá myndi hækka og á fjórða ársfjórðungi 2020 nam hlutfallið 48%.
Í könnuninni eru stjórnendurnir beðnir um að taka afstöðu til fjögurra spurninga. Auk ofangreindrar spurningar sem snýr að verðhækkunum eru stjórnendur spurðir um hversu auðvelt eða erfitt sé að manna stöður hjá fyrirtæki þeirra, hvort þeir telji að starfsfólki muni fækka eða fjölga á næstu 12 mánuðum og loks eru þeir beðnir um að taka afstöðu til þess hvort aukin hagræðing muni verða í rekstrinum á næstu mánuðum.
Tæplega helmingur vill fjölga starfsfólki
Benda niðurstöður könnunarinnar til þess að framtíðarhorfur íslenskra fyrirtækja séu fremur bjartar, a.m.k. hvað atvinnustig varðar. Telja 50% fyrirtækja að fjöldi starfsfólks muni standa í stað á næstu 12 mánuðum, 45% telja að starfsfólki muni fjölga og aðeins 5% reikna með að starfsfólki muni fækka. Er marktækur munur milli tímabila og telja fyrirtækin nú að starfsfólki muni fjölga meira en þrjú árin þar á undan.
Þá telja 37% fyrirtækja erfitt að manna stöður hjá sínum fyrirtækjum, 39% finnst auðvelt að manna stöður og 24% telja hvorki auðvelt né erfitt að manna stöður. Marktækur munur er á milli tímabila og telja fyrirtæki á Íslandi að erfiðara hafi verið að manna stöður í fyrra í samanburði við árið áður. Þegar rýnt er í þróun milli ársfjórðunga má sjá að á fjórða ársfjórðungi 2020 var auðveldast fyrir fyrirtækin að manna stöður, þar sem 64% stjórnenda töldu auðvelt að manna stöður og aðeins 17% töldu það erfitt.
Ætla má að Covid-19 heimsfaraldurinn hafi haft mest um það að segja enda missti lífsviðurværi sitt fjöldi fólks sem starfaði í greinum sem urðu hvað verst fyrir barðinu af sóttvarnaráðstöfunum, skömmu eftir að faraldurinn kom til landsins í lok febrúar árið 2020. Þar af leiðandi jókst atvinnuleysi hér á landi mikið og við slíkar aðstæður getur vart talist óeðlilegt að alla jafna gangi vel að manna stöður sem losna innan fyrirtækja. Eftir því sem liðið hefur á faraldurinn og dregið úr atvinnuleysi hefur þeim fyrirtækjum sem hefur reynst auðvelt að manna stöður fækkað.
Ríflega helmingur stjórnenda, eða 54%, telur að aukin hagræðing muni verða í rekstri sinna fyrirtækja á næstu mánuðum, 37% voru hvorki sammála né ósammála um að aukin hagræðing yrði í rekstri og loks eru aðeins 8% stjórnenda sem sjá ekki fram á hagræðingu í rekstri síns fyrirtækis.
Niðurstöður könnunarinnar byggja á svörum 550 stjórnenda úr íslensku atvinnulífi, en með stjórnanda er átt við framkvæmdastjóra, fjármálastjóra eða mannauðsstjóra. Úrtak könnunarinnar samanstóð af 1.200 stjórnendum og var svarhlutfall því 46%.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .