Valgeir Gunnlaugsson, betur þekktur sem Valli flatbaka, opnar í dag nýjan pizzastað sem ber heitið Pizza 107. Pizzastaðurinn er staðsettur á Hagamel 67 þar sem bókabúðin Úlfarsfell var til húsa og munu dyrnar opna klukkan 17 í dag.

Valli seldi Íslensku Flatbökuna í mars á þessu ári sem hann stofnaði fyrir átta árum síðan og er nú kominn aftur í pizzabaksturinn.

„Ég tók smá hliðarskref og opnaði Indican í lok síðasta árs. Mig langaði aðeins að breyta til og taka á mig nýja áskorun, en pizzugerð á allan minn hug og hjarta. Plútó Pizza var þarna líka á sínum tíma þannig var þegar til staðar pizzaofn og öll tæki og tól sem þarf til að gera pizzur“ segir Valli.

Hann bætir við að Páll Óskar verði með honum í nýja verkefninu ásamt fleiri góðum aðilum.

„Palli kemur inn í þetta þar sem hann er náttúrulega Vesturbæingur í húð og hár og ásamt svo mörgum öðrum Vesturbæjingum þá tengir hann þetta horn við hlýjuna sem var í bókabúðinni á sínum tíma.“

Valli segir að margir íbúar í nágrenninu hafi farið þangað til að kaupa sér Séð og Heyrt blöð eða skrifföng og vilja þeir ná upp þessari hlýju sem var á þeim tíma þegar kaupmaðurinn á horninu lifði góðu lífi.

„Við erum búnir að leggja mikla vinnu í að ná fram þessum karakter sem okkur finnst þetta horn eiga skilið. Við verðum meðal annars með 107 skrautljósaperur ásamt gömlum myndum af Vesturbænum sem hanga á uppi á veggjum staðarins en í stað þess að finna lykt af bókum þegar þú labbar inn þá finnur þú lykt af nýbökuðum pizzum.“