Ummæli Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra í viðtali við Morgunblaðið þann 10. febrúar síðastliðinn þar sem hún sagði meðal annars að bankarnir væru að skila „ofurhagnaði" og hann ætti að nota til að greiða niður vexti almennings, hafa vakið mikla athygli. Hún sagði að ef bankarnir færu ekki að huga að heimilum í landinu ætti að „endurvekja bankaskattinn" svokallaða. Vísaði hún þar til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki sem nemur í dag 0,145 prósentum af heildarskuldum umfram 50 milljarða króna, en árið 2020 var skatturinn lækkaður úr 0,376 prósentum sem hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar því að fjármálaráðherra hafi í síðustu viku tekið af öll tvímæli þess efnis að ekki standi til að hækka bankaskatt.
„Bankaskatturinn er nú þegar til staðar og er hærri en í nokkru öðru ríki Evrópu. Hann dregur úr samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja og eykur vaxtamun. Það er aðalatriði máls," segir Halldór í samtali við Viðskiptablaðið.
Hann bendir á að raunvextir á Íslandi séu neikvæðir og vaxtastig með því lægsta sem sést hafi hér á landi. Skattheimta sem byggi á afturvirkum sjónarmiðum sé vanhugsuð aðferðafræði og ekki til þess fallin að bæta kjör viðskiptavina.
„Vaxtamunur eykst við aukna sértæka gjaldtöku af fjármálakerfinu og því hætt við að aðgerðin hefði þveröfug áhrif á þróun vaxtamunar," segir Halldór. Þá telur hann tillögur sem þessar ekki til þess fallnar að viðhalda né auka virði hlutar ríkisins í Íslandsbanka, en til stendur að selja þann stóra hluta á næstu misserum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .