„Það er ekki hægt að segja annað en að það hafi gengið mjög vel. Það hafa verið mörg verkefni og margt um að vera, bæði í eigin verkefnum og í útboðsverkum,“ segir Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, í viðtali í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri sem kom út í gær.

„Stærsta útboðsverkið nú er fimm hæða skrifstofubygging Alþingis sem við skilum af okkur snemma á næsta ári. Við munum ljúka fyrsta áfanga Stekkjarskóla fyrir Árborg í lok árs og erum að ljúka samningum um annan áfanga skólans sem hefst væntanlega strax á þessu ári. Auk þess höfum við unnið við brúarog vegaframkvæmdir á Suðurlandi sem klárast að mestu á þessu ári.“ Hann bætir við að félagið hafið lokið framkvæmdum á Landsbankanum og Hafnartorgi á síðasta ári.

Þegar kemur að eigin verkefnum séu verkefnin ekki verið síður spennandi og fjölbreytt, að sögn Þorvalds. „Við vorum með 350 íbúða verkefni í Vogabyggðinni, 165 íbúða verkefni í Sunnusmára og um 300 íbúðir á Maríugötu í Urriðaholti. Auk þeirra bættust við á þessu ári íbúðaverkefni við Asparskóga á Akranesi, Baughamar í Hafnarfirði og Grímsgötu á Urriðaholti.“ Eins hafi félagið byggt töluvert af atvinnuhúsnæði, til dæmis stórhýsi við Urðarhvarf og við Dalveg í Kópavogi, ásamt fleiri byggingum.

200 fullbúnar íbúðir á ári

Þorvaldur segir vel hafa tekist til við að byggja upp Urriðaholtshverfið í Garðabæ, en fyrir utan íbúðauppbygginguna hefur félagið einnig samið við Garðabæ um byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla og er það verkefni komið af stað. Hann segir mikilvægt hvernig tekst til við skipulagsvinnuna sem slíka.

„Í Urriðaholtinu er það einkaaðili sem hefur með skipulagið og sölu byggingaréttar að gera og vinnur síðan lóðavinnu og gatnagerð í samvinnu við Garðabæ. Þar hefur uppbyggingin og skipulag hverfis gengið vel að mínu mati og útkoman er góð. Það er þó allur gangur á því hjá sveitarfélögunum almennt hvernig til tekst í skipulagsmálum og uppbyggingu og mætti oft fara betur.“

Þorvaldur segir að félagið stefni á að vera með um 200 íbúðir fullbúnar á hverju ári. „Á þessu ári munum við skila 190 fullbúnum íbúðum til nýrra kaupenda og á næsta ári verðum við með meira en 250 fullbúnar íbúðir.“ Hann bætir við að til þess að geta framleitt um það bil 200 íbúðir á ári sé félagið með að jafnaði 500 íbúðir á mismunandi framkvæmdastigi í vinnslu.

Verktakar sitja uppi með Svarta Pétur í útboðsverkum

Þorvaldur segir að þrátt fyrir jákvætt rekstrarár að mörgu leyti hafi 2021 verið ár verðhækkana. Þannig jókst verktaka- og byggingakostnaður um þriðjung á milli ára og fyrir vikið dróst hagnaður saman um 61%, sem Þorvaldur segir að megi meðal annars rekja til kostnaðarverðhækkana og lakari afkomu af útboðsverkum.

„Við höfum horft fram á gríðarlegar hækkanir á aðföngum fyrst í kjölfar faraldursins og aftur vegna stríðsins í Úkraínu. Verð á timbri, málmum og öðrum aðföngum hefur meira en tvöfaldast í verði og flutningskostnaður hækkað mikið. Þannig eru verð á aðföngum nú í mörgum tilvikum á bilinu 40- 70% hærri en fyrir faraldur. Á íbúðamarkaði hefur hækkandi íbúðaverð komið á móti þessum verðhækkunum, en í útboðsverkum sem við sömdum um fyrir 1-2 árum höfum við í mörgum tilvikum þurft að borga með verkunum. Það blasir ekki annað við en að reka þau með tapi og þar sitjum við verktakar uppi með Svarta Pétur.“

Talað fyrir daufum eyrum

Seðlabanki Íslands hefur farið í aðgerðir til að kæla fasteignamarkaðinn og stemma stigu við verðbólgunni, og hafa stýrivextir meðal annars hækkað um 4,75 prósentustig frá því í maí í fyrra.

„Það er eðlilegt að Seðlabankinn ráðist í aðgerðir til að stemma stigu við verðbólgu og stuðla að stöðugleika. En það er undirliggjandi eftirspurn til staðar á íbúðamarkaði og það mætti velta fyrir sér hvað gerist til lengri tíma litið ef íbúðamarkaður er kældur of mikið og eftirspurn heldur áfram að byggjast upp. Það hafa komið fram spár um hækkandi hagvöxt og enn meiri straum ferðamanna og aðflutts vinnuafls til landsins sem gerir trúlega ekkert annað en að auka eftirspurn á íbúðamarkaði.“

Hann segir íbúðaskort og hækkandi verð á íbúðamarkaði líta að sama vandamálinu, aðgengi að byggingarlóðum. „Fulltrúar sveitarfélaga og byggingaryfirvöld hafa verið að tala um þetta vandamál síðan árið 2015, en ég get ekki séð að umræðurnar hafi leitt af sér annað en enn meiri umræður og fáar lausnir. Við höfum kallað eftir því að fá að hefja uppbyggingu á íbúðum í stórum stíl, meðal annars innan borgarmarkanna í Reykjavík, en höfum einfaldlega talað fyrir daufum eyrum.“

Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.