Verð á íbúðum í Kaupmannahöfn hefur lækkað um 8,6% frá því í maí þegar verðið var hæst. Í september lækkaði verðið um 1,8%. Börsen greinir frá þessu í blaði dagsins.
Lise Nytoft Bermann hagfræðingur hjá Nordea segir í samtali við blaðið að markaðurinn sé að hægja hratt á sér. Framboð hefur aukist og velta hefur minnkað. Þess vegna hefur verðið lækkað svo mikið.
„Sorglegu fréttirnar fyrir seljendur eru þær að við teljum að lækkunin muni halda áfram,“ segir Lise Nytoft Bermann.
Viðskiptablaðið sagði frá því á fimmtudag að mjög hafi hægt á sölu með notaða bíla í Danmörku, verð hafi lækkað og mikið framboð sé nú af Teslu Model 3.