Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólgan verði að jafnaði 8,1% á þessu ári en að hún hjaðni hratt á komandi misserum. Ársverðbólgan hefur hjaðnað síðustu tvo mánuði og útlit fyrir að verðbólgan hafi náð toppi í júlí þegar hún mældist 9,9%.

Bankinn spáir því að 12 mánaða verðbólga hjaðni í 8,9%, en hún var 9,3% í september.

Í síðasta mánuði lækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,01% en það sem vó á móti í reiknaðri húsaleigu var vaxtaþátturinn. Reiknaða húsaleigan byggir á þessum tveimur liðum og útkoman í septembermánuði var því 0,05% hækkun á milli mánaða en það er minnsta hækkun frá nóvember 2020, að því er kemur fram í greiningunni.

Samkvæmt mælingu Greiningar Íslandsbanka mun liðurinn ferðir og flutningar hækka um 0,8% á milli mánaða. Þar munar helst um flutninga í lofti sem hækka um 2,8% eftir að liðurinn hækkaði um 17% í síðasta mánuði.

Þá hækkar eldsneyti líka í verði um 1,2% samkvæmt spá greiningarinnar, en það hefur lækkað um tæp 6% síðustu tvo mánuði.

Verðbólga hjaðni hratt á næstunni

Vísitala neysluverðs hefur hækkað umtalsvert síðastliðið árið. Bankinn spáir því að verðbólgan verði komin niður í 7,6% strax í janúar á næsta ári.

„Við erum líklega að sigla inn í tímabil þar sem stórir hækkunarmánuðir detta útúr ársmælingunni og inn koma mánuðir sem hækka töluvert minna. Þetta mun leiða til þess að verðbólga hjaðnar hratt á næstunni. Í skammtímaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,1% hækkun vísitölunnar í nóvember, 0,3% hækkun í desember og 0,3% lækkun í janúar. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,6% í janúar og vera 8,1% að jafnaði á þessu ári.“

Samkvæmt spá bankans sé þó langt í að verðbólgan verði við 2,5% markmið Seðlabankans.

„Nú er útlit fyrir rólegan íbúðamarkað á komandi fjórðungum sem hjálpa mikið við hjöðnun verðbólgunnar á næstunni. Langtímaspá okkar hljóðar upp á 5,4% verðbólgu að jafnaði á næsta ári og 3,6% árið 2024.“

© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Helstu forsendur spár okkar er rólegur íbúðamarkaður og að hægja muni á innfluttu verðbólgunni auk þess að styrking krónu muni halda aftur af innflutningsverðlagi. Annar óvissuþáttur í spánni eru kjarasamningar sem losna nú í vetur. Við gerum þó ráð fyrir talsverðum launahækkunum í spánni, sér í lagi árið 2023,“ segir í greiningu Íslandsbanka.