Verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnaði þriðja mánuðinn í röð og mældist 8,2% í september en til samanburðar var hún 8,3% í ágúst. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,4% á milli mánaða. Kjarnaverðbólga, sem gefur merki um undirliggjandi verðbólguþrýsting, jókst á milli mánaða.
Hagfræðingar sem Reuters leitaði til spáðu því að meðaltali að verðbólgan myndi hjaðna niður í 8,1% í september. Þeir áttu hins vegar von á að kjarnaverðbólgan myndi hækka upp í 6,5%.
Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 6,6% í september og hækkaði um 0,3 prósentustig frá því í ágúst. Kjarnaverðbólgan mældist yfir spám greiningaraðila annan mánuðinn í röð.
Næsta vaxtaákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna er boðuð þann 2. nóvember næstkomandi. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti um 0,75 prósentustig við hverja af síðustu þremur vaxtaákvörðunum. Vextir bankans eru nú á bilinu 3,0%-3,25%.