Hagnaður Síldarvinnslunnar nam 73,4 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2023 sem samsvarar ríflega 10 milljörðum króna á gengi dagsins.
Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 10,6 milljónum dala en félagið sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun í byrjun febrúar þar sem áætlað var að EBITDA samstæðunnar myndi nema um 121 milljónum dala eða um 16,4 milljörðum króna.
Var það í nærri lagi en rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 121,8 milljónum dala eða 16,5 milljörðum króna á gengi dagsins. Mun það vera hækkun úr 104,6 milljónum dala árið 2022.
Í ársuppgjöri segir að um sé að ræða eitt besta rekstrarár Síldarvinnslunnar til þessa. Loðnuvertíð var góð í upphafi árs. Veiðar á makríl gengu vel og veiðarnar fóru að mestu fram í íslenskri lögsögu.
Síldveiðar á haustmánuðum gengu vel á meðan umfang bolfiskstarfsemi jókst með tilkomu Vísis í samstæðuna.
Enn ríki þó óvissa með áframhaldandi bolfiskstarfsemi í Grindavík í kjölfar jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesi.
Félagið styrkti sölu- og markaðsstarf sitt með fjárfestingu í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood.
Um 88 milljarðar í eigið fé
Heildareignir samstæðunnar námu 1,1 milljarði Bandaríkjadala sem samsvarar um 149 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Fastafjármunir voru um 889 milljónir dala og veltufjármunir 210 milljónir dala.
Eigið fé félagsins var 644,5 milljónir dala sem er um 88 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall var 58,6% í lok tímabilsins en það var 55,2% í lok árs 2022.
Heildarskuldir og -skuldbindingar félagsins voru 454,4 milljónir dala og lækkuðu um 20,1 milljónir dala frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 304,7 milljónir dala í lok tímabilsins og lækkuðu um 21 milljónir dala frá áramótum.
„Við erum að loka einu besta rekstrarári í sögu félagsins. Árið hefur verið um margt viðburðaríkt og uppbygging félagsins heldur áfram. Loðnuvertíðin 2023 gekk vel og var mikið framleitt. Aukning aflaheimilda seint á vertíðinni skilaði metframleiðslu loðnuhrogna. Framleiðsla var töluvert umfram eftirspurn og fylgdu mikil verðlækkun og birgðasöfnun í kjölfarið. Heilt yfir gengu uppsjávarveiðar vel á árinu,” segir Gunnþór Ingvarsson forstjóri SVN.
Gunnþór segir að makrílveiðar Síldarvinnslunnar fari að mestu fram innan íslenskrar lögsögu sem sé jákvætt fyrir Íslendinga.
Markaðsaðstæður fyrir uppsjávarafurðir voru góðar hjá félaginu og mikil eftirspurn á mjöl- og lýsismarkaði.
„Um mitt ár var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á 50% hlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood ehf. en kaupin eru mikilvæg til að efla enn frekar sölu- og markaðshlið Síldarvinnslunnar. Við sjáum aukin tækifæri í því að íslensk sjávarútvegsfélög snúi bökum saman þegar kemur að sölu- og markaðsstarfi erlendis enda samkeppni hörð á erlendum mörkuðum og samkeppnisaðilar sterkir. Þar teljum við að slíkt samstarf muni skila aukinni verðmætasköpun.
Frábær árangur Síldarvinnslunnar á árinu byggir á áratuga reynslu öflugs starfsfólks á öllum vígstöðvum, sem hefur lagt mikið á sig á árinu, sem og markvissum fjárfestingum síðustu ára,“ segir Gunnþór.