Veitingamenn Götubitahátíðarinnar í síðustu viku voru margir sammála því að aðsóknin á hátíðina hefði margfaldast undanfarin ár og að hátíðin væri þegar farin að breyta matarmenningu Íslendinga.
Götubitahátíðin fór fram helgina 19.-21. júlí í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Siggi kokkur sigraði keppnina um besta götubitann og fær hann því að keppa fyrir hönd Íslands á European Street Food Awards í Þýskalandi í október.
Atli Snær var einn af þeim sem elduðu fyrir gesti hátíðarinnar en hann mætti með matarvagninn sinn Komo sem sérhæfir sig í öðruvísi réttum eins og kóreskum tacos, kimchi-ostborgurum og ýmsu öðru.
„Þetta er núna í fimmta sinn sem við tökum þátt í hátíðinni en við tókum meðal annars verðlaun í fyrra. Það er búið að vera brjálað að gera og við vorum í alla nótt að undirbúa. Það er bara æðislegt að sjá hvað þetta hefur þróast og hvað Róbert er búinn að gera með þetta.“
Haukur Már Hauksson, einnig þekktur sem Haukur Chef eða Haukur á Yuzu, var einnig á hátíðinni en í ár var hann að elda pylsur með Sigurði Haraldssyni, betur þekktur sem pylsumeistarinn. Sigurður er þá líka bróðir afa Hauks.
„Þetta hefur ekki stoppað í allan dag og það var líka brjálað að gera í gær. Við erum alveg mjög ánægðir með hvað fólk hefur tekið vel í þetta. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er að grilla pylsur en það hefur gengið mjög vel. Við erum mjög fljótir að afgreiða þannig fólk er fljótt að koma og fara.“
Aðspurður um það hvort það sé öðruvísi að elda pylsur í miklu magni samanborið við hamborgarana á Yuzu segir Haukur að pylsur séu ekkert það frábrugðnar hamborgurum. „Það elska allir pylsur og hamborgara. Við viljum bara sjá meira af þessu“.