Forstjóri stærsta orkufyrirtækis Danmerkur, Ørsted, viðurkennir að raunveruleg hætta hafi verið á að lánshæfismat félagsins yrði fellt niður í svokallaðan ruslflokk hjá stærstu matsfyrirtækjum heims.
Til að forða félaginu frá slíkri lækkun hyggst Ørsted nú afla sér 60 milljarða danskra króna með útboði á nýju hlutafé.
Danska ríkið, sem er stærsti hluthafinn, hefur lýst yfir vilja til að leggja til helming fjárhæðarinnar eða um 30 milljarða danskra króna.
„Það er okkar niðurstaða að hlutafjáraukning sé nauðsynleg og besta leiðin til að endurbyggja Ørsted,“ sagði forstjórinn Rasmus Errboe í gær enBørsen greinir frá.
766 milljarða gat í fjárhagsáætlun
Hlutafjáraukningin er í beinni andstöðu við fyrri yfirlýsingar Rasmus Errboe, forstjóra Ørsted um að hlutahafar þyrftu ekki að bera kostnað af endurskipulagningu fyrirtækisins.
Ástæðan sé sú að stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafi skapað svo mikla óvissu að félagið geti ekki lengur selt stór vindorkuverkefni til að fjármagna rekstur og nýframkvæmdir.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna hét því í kosningabaráttu sinni að stöðva vindorkuverkefni úti á hafi „strax á fyrsta degi“ í embætti.
Á vormánuðum stöðvaði Trump stórt vindorkuverkefni í New York sem var í höndum helsta keppinautar Ørsted, Equinor.
Áhrifin voru mikil á bandaríska vindorkuiðnaðinn og Ørsted neyðist nú til að hætta við fyrirhugað söluferli á Sunrise Wind-verkefninu.
Sú ákvörðun mun búa til 40 milljarða danskra króna gat í fjárhagsáætlun félagsins og, að sögn Errboe, setti hún lánshæfismat Ørsted í beina hættu. Upphæðin samsvarar um 766 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Tvö þrep frá rusli og gengishrun
Lánshæfi Ørsted hjá S&P, Moody’s og Fitch er nú aðeins tveimur þrepum ofar en ruslflokkur.
Horfur matsfyrirtækjanna S&P og Fitch eru þegar neikvæðar. Ef fyrirtækið væri ekki með danska ríkið sem meirihlutaeiganda væri matið einu þrepi lægra.
Fall í ruslflokkslánshæfi myndi þýða hærri lántökukostnað. Í versta falli gætu lánardrottnar krafist fyrirframgreiðslu á stórum lánum eða aukinna trygginga í reiðufé.
Ørsted hefur glímt við fjárhagsvanda í tvö ár eftir að stórauknar fjárfestingar í bandarískum vindorkumarkaði hafa ekki skilað tilætluðum árangri.
Errboe tók við sem forstjóri í janúar, á miðjum storminum, eftir brottrekstur forvera síns Mads Nipper.
Áætlað er að hluthafar samþykki hlutafjáraukninguna á aukaaðalfundi í september. Markmiðið er að styrkja eiginfjárstöðu og tryggja að félagið haldi lánshæfi í fjárfestingarflokki.
Viðbrögðin á markaði voru hörð. Gengi Ørsted féll um 29,6% í gær og lokaði í lægsta verði frá upphafi.