Síðustu tvö ár voru metár í 55 ára sögu Gróðrarstöðvarinnar Markar. Velta félagsins nam 233 milljónum króna árið 2021 og 199 milljónum árið 2020. Til samanburðar var velta Markar á bilinu 113-165 milljónir árin 2015-2019.

„Í fjármálahruninu varði fólk meiri tíma heima hjá sér, passaði upp á peningana sína og vildi rækta garðinn sinn. Það sama gerðist í Covid þegar lokað var á ferðalög og fólk átti að halda sér heima. Við vissum ekki að við værum í samkeppni við flugfélög fyrr en í Covid,“ segir Sigríður Helga Sigurðardóttir, sem á Mörk með eiginmanni sínum, Guðmundi Vernharðssyni.

„Það er hins vegar ekki gott að það þurfi alltaf einhverjar krísur til þess að fólk fari að huga að garðinum.“

Mörk, sem framleiðir sjálf um 90% af plöntum og trjám til sölu í versluninni í Fossvoginum, er með þrjá árganga af trjám og runnum í pottum í ræktun á hverjum tíma. Þegar líða tekur á sumarið geta þau tekið af næsta árgangi.

„Það er ekkert hlaupið að því að tryggja nægt framboð. Sumar af þessum tegundum eru bara framleiddar á Íslandi,“ segir Guðmundur. „Það kom fyrir að við seldum upp árganga næsta árs.“

Hjónin keyptu Gróðrarstöðina Mörk árið 2000 af Mörthu C. Björnsson og Pétri N. Ólafssyni sem stofnuðu fyrirtækið árið 1967. Guðmundur vann hjá þeim frá 16 ára aldri og hefur verið hjá Mörk á nær allri starfsævi sinni. „Það tók okkur 20 ár að eignast Mörk. Við höfum alltaf stefnt að því að vera skuldlaus og erum það í dag.“

Síðustu sumur vanmetin

Hjónin segja að þótt síðastliðin sumur hafi verið sólarlítil og margir kvartað undan leiðinlegu veðri, þá hafi þeim fundist þau þokkalega mild. Flestar plöntutegundir standi sig vel í hlýju og mildu veðri. Ákveðin sumarblóm eins og sólboði, hádegisblóm og mánafífill þurfi hins vegar sól til að opna sig.

„Undanfarin ár hefur veðurfarið hjálpað okkur, það er orðið mildara. Vorin byrja fyrr og haustin eru lengri. Því er frost í jörðu yfir skemmri tíma á veturna. Þetta hjálpar allt plöntunum og gerir það að verkum að fleiri tegundir þrífast hér,“ segir Guðmundur.

„Fólk sækir almennt til okkar þegar það er milt og hlýtt veður eins og var í sumar, þótt það hafi verið lítil sól og oft smá rigning.“ Veðurfar geti haft mikil áhrif á reksturinn og erfitt getur reynst þegar aðalsölutíminn í maí og júní einkennist af slagveðri.

Bændur í borginni

Hjónin eru bæði garðyrkjumenntuð og segjast því í raun ekki stimpla sig út í lok vinnudags. Sigríður Helga líkir þeim við bændafólk sem búi í borginni.

„Þetta er svolítið eins á bóndabýlum í gamla daga. Konan og maðurinn voru alltaf saman og töluðu um kusurnar og lömbin yfir matnum. Þetta er svipað hjá okkur nema við tölum um trjáplöntur. Maður er alltaf að spá í vaxtarlagi trjáa, haustliti, vetrarútlit, greinarbyggingu í lauflausu og annað slíkt. Það er svo margt sem tengir þig við þetta.”

Guðmundur segir að þau séu einnig lík bændum að því leyti að þau fá nær allar tekjur sínar inn á sumrin og þurfa að láta þær duga yfir allt árið.

„Við erum kannski með smá tekjur í september og október en fáum ekki aftur inn tekjur fyrr en í maí. Reksturinn er líka á skjön við nútímann að því leyti að hann er mjög fjölbreyttur. Almennt er horft til hagkvæmni í formi sérhæfingar og vélvæðingar. Markaðurinn okkar er hins vegar svo lítill. Til þess að lifa á þessu þá verður maður að hafa mörg hjól undir vagninum. Við segjum stundum að sérhæfing okkar sé mjög fjölhæf.“

Annað sem aðskilur gróðrarstöðina frá hefðbundnum rekstri er lengri framleiðslutími. Það tekur allt að 10-12 ár þar til trén sem eru lengst í framleiðslu eru sett í sölu.

Garðeigendur vilja ræða hlutina

Sigríður Helga segir að Mörk leggi áherslu á góða þjónustu og er því með garðyrkjufræðinga á planinu sem geta ráðlagt fólki hvaða plöntur passa saman.

„Garðeigendur þurfa að fá að tala um sína upplifun og reynslu af mismunandi tegundum. Okkar markmið er að viðskiptavinum takist það sem þeir stefna að. Það gleður fólk þegar hlutirnir ganga upp og hvetur það til að halda áfram.“

Eins og að ala upp barn

Niðurstöður úr markaðsgreiningu sem framkvæmd var fyrir Mörk sýndu að viðskiptahópur fyrirtækisins væri helst fólk yfir 35 ára aldri. Sigríður Helga segist þó hafa fundið fyrir aukinni aðsókn frá ungu fólki í að stíga sín fyrstu skref í garðyrkju.

„Ég segi oft við unga fólkið að þetta sé ekkert ólíkt því að ala upp barn. Eftir því sem þú hefur betri jarðveg og gefur því meiri næringu, þeim mun betra og fallegra verður það. Það er ekki bara nóg að planta þeim heldur þarf að hugsa vel um trén í gegnum æviskeiðið. Þá uppskerðu vel.“

Sérblaðið Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri kom út í síðustu viku. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.