Evrópskar vopnaverksmiðjur eru nú að stækka á þreföldum hraða miðað við venjulega fjárfestingu og uppbyggingu á friðartíma, samkvæmt nýrri greiningu Financial Times sem byggir á gögnum frá gervihnöttum.
Samanlagt er um að ræða yfir 7 milljónir fermetra af nýjum iðnaðarsvæðum sem markar sögulegan áfanga í endurvopnun álfunnar.
Byggingaframkvæmdir hafa aukist hratt frá innrás Rússlands í Úkraínu árið 2022, þegar evrópsk ríki hófu að efla varnarbúnað sinn með auknum opinberum stuðningi.
Greining FT, sem tók til 150 vopnaframleiðslustöðva hjá 37 fyrirtækjum í Evrópu, sýnir að endurvopnunin er nú ekki lengur aðeins á stefnuskrá stjórnmálanna heldur farin að birtast í stáli, steinsteypu og jarðvegsframkvæmdum.
Framkvæmdirnar snúa að stórum hluta að framleiðslu á skotfærum og eldflaugum, tveimur mikilvægum flöskuhálsum í stuðningi Vesturlanda við Úkraínu.
Gögn frá Sentinel-1 radargervihnöttum Evrópsku geimvísindastofnunarinnar sýna að um þriðjungur skoðaðra framleiðslustöðva hefur sýnt merki um stækkun eða nýbyggingar frá 2022.
William Alberque, sérfræðingur í vopnaeftirliti hjá Asia Pacific Forum og fyrrverandi yfirmaður hjá NATO, segir breytingarnar miklar og varanlegar.
„Þegar þú ferð að fjöldaframleiða sprengjur þá fer hráefnið að flæða hraðar, kostnaður lækkar og framleiðsla á eldflaugum einfaldast.“
ESB styrkir framleiðsluna
Eitt stærsta stækkunarverkefnið er ný framleiðslustöð í Várpalota í Ungverjalandi, byggð í samstarfi þýska varnarmálarisans Rheinmetall og ríkisfyrirtækisins N7 Holding.
Fyrsta verksmiðjan, sem framleiðir 30 mm skot fyrir KF41 Lynx-brynvarðafarartækið, var tekin í notkun í júlí 2024.
Þar eru einnig áform um framleiðslu á 155 mm stórskotaliðsskotum og 120 mm skotum fyrir Leopard 2 skriðdreka og mögulega Panther-gerðina, auk sprengiefnaverksmiðju.
Í Frakklandi hefur Roxel stækkað verksmiðju sína í Saint-Médard-en-Jalles, sem framleiðir eldflaugaþætti, með aðstoð frá evrópsku fjármögnunaráætluninni Act in Support of Ammunition Production (ASAP).
ASAP, sem er 500 milljóna evra stuðningsáætlun ESB, hefur haft veruleg áhrif á framleiðslugetu.
Af 88 verksmiðjum sem fengu stuðning hafa 20 sýnt mikla stækkun, þar á meðal nýjar byggingar og vegir.
ESB áætlar að árleg framleiðslugeta á skotfærum í álfunni hafi aukist úr 300 þúsund árið 2022 í um 2 milljónir í lok þessa árs.
Rheinmetall eitt og sér stefnir á að auka framleiðslu á 155 mm sprengjum úr 70 þúsund árið 2022 í 1,1 milljón árið 2027.
Í Þýskalandi hefur eldflaugaframleiðandinn MBDA, með 10 milljóna evra ASAP-styrk, stækkað höfuðstöðvar sínar í Schrobenhausen. Fyrirtækið vinnur nú að uppsetningu á framleiðslulínu fyrir Patriot GEM-T loftvarnareldflaugar, í kjölfar 5,6 milljarða dala NATO-samnings.
Norska fyrirtækið Kongsberg opnaði nýja eldflaugaverksmiðju í júní 2024, studda með samtals 62 milljóna dala fjármögnun, þar af 10 milljónir evra úr ASAP.
BAE Systems í Bretlandi hefur fjárfest yfir 150 milljónum punda í skotfæraverksmiðjum frá 2022, m.a. til að sextánfalda framleiðslugetu 155 mm sprengja í Glascoed í Wales.
Þrátt fyrir þessa miklu uppbyggingu vara sérfræðingar við því að framleiðslan geti orðið undir hámarksgetu.
Fabian Hoffmann, eldflaugasérfræðingur við Háskólann í Osló, bendir á að enn sé skortur á lykilhlutum, m.a. sprengiefnum og smáþotuhreyflum fyrir langdrægar eldflaugar.
„Þetta er forsenda þess að NATO geti hrint í framkvæmd varnarstefnu sinni gagnvart Rússlandi. Ef við ætlum að halda aftur af þeim þurfum við að auka framleiðsluna verulega.“
ESB vinnur nú að nýrri 1,5 milljarða evra áætlun sem byggir á sömu hugmyndafræði og ASAP, með áherslu á eldflaugar, loftvarnarkerfi, stórskotalið og dróna.