Björn Kr. Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, segir í samtali við Viðskiptablaðið að allar líkamsræktarstöðvar fyrirtækisins hafi þegar slegið janúarmetin frá því í fyrra þrátt fyrir að vika sé eftir af mánuðinum.
Janúarmánuðurinn er gjarnan sá tími árs þar sem margir ákveða að kaupa sér líkamsræktarkort eða borða hollari mat til að koma til móts við jólaátið og gleðina yfir hátíðirnar. Sumir hætta einnig allri áfengisneyslu og mæta frekar í sund eða taka upp lóðirnar í salnum.
„Þeim fjölgar alltaf en toppnum er svo alltaf náð 25. mars á vorin og 25. nóvember á haustin. Þetta hefur í raun ekki það mikið að gera með jólin en það er enginn að þyngjast um meira en 1-2 kíló yfir þann tíma. Þessir mánuðir eru þeir dimmustu og eru á þeim tíma þegar allir eru komnir í rútínu,“ segir Björn.
Hann bætir við að meðlimafjöldi World Class hafi aukist um 9% í fyrra og segir að búast megi við svipaðri aukningu fyrir þetta ár. Starfsemi líkamsræktarinnar hefur stóraukist undanfarin misseri og segir Björn að erfiðleikarnir sem World Class upplifði á tímum heimsfaraldurs sé löngu liðin tíð.
„Við erum til dæmis að stækka líkamsræktarstöðina á Selfossi um 800 fermetra. Þá verða 400 fermetrar notaðir í World Fit-salinn, sem er svipað og Crossfit, og svo verður tækjasalurinn stækkaður um 400 fermetra,“ segir Björn og áætlar að nýi staðurinn verði tilbúinn í haust.
World Class er þá einnig að vinna að hönnunarverkefni á Fitjum í Njarðvík þar sem nýtt baðlón verður byggt. Fyrirtækið vinnur að því verkefni með bandarísku arkitektastofunni Populous en hún er jafnframt ein stærsta arkitektastofa í heiminum.
Í það minnsta 2 ár í Sjálands World Class stöðina
Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að World Class hafi keypt bygginguna Sjáland við Ránargrund 4 við Vífilsstaðaveg í Garðabæ fyrir 710 milljónir króna samkvæmt kaupsamningi sem þinglýstur var 29. desember sl. en þar stendur til að opna fyrstu World Class líkamsræktarstöð Garðabæjar.
Í húsinu var um árabil veitingastaðurinn Sjáland og veislusalur en Björn segir að það séu enn að minnsta kosti tvö ár í að líkamsræktarstöðin muni líta dagsins ljós þar og hvíli allt á hvort leyfi um stækkun fáist frá Garðabæ.
Björn segir þá að veitingastaðurinn muni koma til með að opna fyrst en ýmisleg áform eru þó í tengslum við líkamsræktarstöðina og má þar nefna heita potta og gufuklefa sem eru beintengdir við sjóinn.