Arkitektastofa Þórhalls Sigurðssonar og Ene Cordt Andersen, Andersen & Sigurdsson Architects , hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum en samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen hefur velta félagsins aukist um 700% á fjórum árum.
Fyrirtækið telst til svokallaðra Gazella í Danmörku en um er að ræða félög sem hafa tvöfaldað veltu eða hagnað á fjórum fjárhagsárum.
Ene og Þórhallur stofnuðu fyrirtækið í Danmörku árið 1997 en fyrsta verkefni þeirra var að hanna leikskóla í Randers í Randers og göngubrú yfir Næstved leikvanginn í Danmörku.
Þórhallur segir í samtali við Børsen að verkefnin tvö endurspegli enn stofuna í dag.
„Það má segja við byrjuðum á leikskóla og göngubrú og þessi tvö verkefni segja mikið um vinnuna sem við gerum í dag. Þetta eru tvö mjög ólík verkefni en eitt tengist innviðum og hitt samfélaginu en við höfum alveg síðan þá sóst eftir því að taka að okkur verkefni sem sýna þennan fjölbreytileika,” segir Þórhallur.
Samkvæmt Børsen má rekja vöxt stofunnar til verkefna í Danmörku og Grænlandi en teiknistofan er nú að hanna nýjan flugvöll á Grænlandi.
Stór hluti af verkefnum stofunnar er þó einnig á Íslandi en fyrsta verkefni stofunnar á Íslandi var viðbygging við Keflavíkurflugvöll árið 1999.
Þórhallur segir í samtali við Børsen að þó að löndin þrjú séu svipuð að mörgu leyti sé menningarmunur á milli Íslands, Grænlands og Danmerkur sem þurfi að sýna virðingu í arkitektúr.
Þá eru byggingarkröfurnar á Íslandi meiri en í Danmörku þar sem íslensk heimili þurfa að geta staðið af sér jarðskjálfta svo dæmi séu tekin.
Hægt er að lesa viðtal Børsen við Þórhall hér.