Arki­tekta­stofa Þór­halls Sigurðs­sonar og Ene Cor­dt Ander­sen, Ander­sen & Sigurds­son Architects , hefur vaxið gríðar­lega á síðustu árum en sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen hefur velta félagsins aukist um 700% á fjórum árum.

Fyrirtækið telst til svokallaðra Gazella í Danmörku en um er að ræða félög sem hafa tvöfaldað veltu eða hagnað á fjórum fjárhagsárum.

Ene og Þór­hallur stofnuðu fyrir­tækið í Dan­mörku árið 1997 en fyrsta verk­efni þeirra var að hanna leikskóla í Randers í Randers og göngu­brú yfir Næst­ved leik­vanginn í Dan­mörku.

Þór­hallur segir í sam­tali við Børsen að verk­efnin tvö endur­spegli enn stofuna í dag.

„Það má segja við byrjuðum á leikskóla og göngu­brú og þessi tvö verk­efni segja mikið um vinnuna sem við gerum í dag. Þetta eru tvö mjög ólík verk­efni en eitt tengist inn­viðum og hitt sam­félaginu en við höfum alveg síðan þá sóst eftir því að taka að okkur verk­efni sem sýna þennan fjöl­breyti­leika,” segir Þór­hallur.

Sam­kvæmt Børsen má rekja vöxt stofunnar til verk­efna í Dan­mörku og Græn­landi en teikni­stofan er nú að hanna nýjan flug­völl á Græn­landi.

Stór hluti af verk­efnum stofunnar er þó einnig á Ís­landi en fyrsta verk­efni stofunnar á Ís­landi var viðbygging við Kefla­víkur­flug­völl árið 1999.

Þór­hallur segir í sam­tali við Børsen að þó að löndin þrjú séu svipuð að mörgu leyti sé menningar­munur á milli Ís­lands, Græn­lands og Dan­merkur sem þurfi að sýna virðingu í arki­tektúr.

Þá eru byggingar­kröfurnar á Ís­landi meiri en í Dan­mörku þar sem ís­lensk heimili þurfa að geta staðið af sér jarðskjálfta svo dæmi séu tekin.

Hægt er að lesa við­tal Børsen við Þór­hall hér.