Launþegar hins opinbera voru um þriðjungur heildarfjölda launafólks í landinu í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Síðastliðin fimm ár hefur launafólki í opinberum greinum fjölgað um 19% samanborið við 5% aukningu á almennum vinnumarkaði. Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mælti í vikunni fyrir frumvarpi sínu um breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða einkum að því að fella niður þá skyldu forstöðumanns að áminna starfsmann með formlegum hætti vegna brots á starfsskyldum eða þegar starfsmaður hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans. Þá er að auki lögð til breyting á undanþáguákvæði laga um tímabundna setningu í embætti við sérstakar aðstæður.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að laun opinberra starfsmanna hafi hækkað hraðar undanfarin ár en laun á almenna markaðnum. Til samanburðar má nefna að laun opinberra starfsmanna í Danmörku eru leiðrétt niður á við ef launaþróun hins opinbera er umfram almenna vinnumarkaðinn.
Þá kemur fram að flutningsmenn telji að auka þurfi sveigjanleika í opinberu starfsmannahaldi og einfalda beri reglur um starfslok ríkisstarfsmanna. Það verði þó eftir sem áður almenn krafa að málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar starfslokum og lausn frá embætti.
Óæskilegt að ríkið leiði launaþróun
Diljá Mist segir umræddar reglur um áminningu og uppsagnir hafa að mestu haldist óbreyttar frá árinu 1954, þegar fyrstu lögin voru sett um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Síðan þá hafi réttarstaða opinberra starfsmanna styrkst og kjör þeirra batnað, en samhliða þeirri þróun hefur opinberum starfsmönnum fjölgað mikið.
![Diljá Mist Einarsdóttir](http://vb.overcastcdn.com/images/113800.width-500.jpg)
Hún telur mjög óæskilegt að ríkið sé leiðandi í launaþróun. Almenni markaðurinn eigi að vera leiðandi í þróun launa og öðrum starfskjörum. Tryggja verði að eftirsóknarvert og aðlaðandi sé að starfa þar sem verðmætasköpun hagkerfisins eigi sér stað.
„Hið opinbera má ekki yfirbjóða einkageirann á öllum sviðum, til lengdar skaðar það alla. Þegar upp er staðið – hver borgar þá reikninginn?“„Verkefni ríkisins eru sömuleiðis orðin umfangsmeiri og oft hliðstæð þeim sem eru á almennum markaði. Það er nauðsynlegt að sveigjanleiki sé til staðar í starfsmannahaldi ríkisins til að stuðla að markvissri nýtingu fjármuna og góðri þjónustu við landsmenn,“ segir hún.
Fréttin er huti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 13. október.