Inditex, móðurfélag fataverslananna Zara, hyggst opna nokkrar af verslunum sínum í Úkraínu á ný með vorinu og um leið að opna fyrir vefverslun sína í landinu.

Enduropnunin mun taka mið af ástandinu í landinu og markaðsaðstæðum að sögn móðurfélagsins. Undir hatti Inditex eru einnig verslanir á borð við Pull&Bear, Massimo Dutti og Bershka en félagið lokaði öllum verslunum sínum í Úkraínu 24. febrúar 2022.

Frá þeim tíma hefur félagið þó stutt við starfsfólk sitt þar í landi og greitt því laun. Inditex fetar þar með í fótspor sænska fatarisans H&M sem tilkynnti í nóvember sl. að það hefði hafið undirbúning að enduropnun verslana í Úkraínu.