Ríkisútvarpið hefur vakið athygli á því að undanförnu að hægt er að nota gervigreindina til þess að búa til sannfærandi myndskeið af þekktum Íslendingum að segja einhverja vitleysu sem er þeim þvert í geð. Týr telur rétt að benda lesendum á að ummæli Kristrúnar í hlaðvarpinu Chess After Dark, eða Hrókar alls fagnaðar eins og nafn þáttarins myndi útleggjast á íslensku, fyrir um ári síðan eru ekki hluti af þessari umfjöllun ríkismiðilsins.

Orðrétt sagði Kristrún í hlaðvarpinu: „Þetta er mjög stór breyting fyrir íslenskt samfélag og þú verður að vera með ofboðslega sterkt umboð til verka og þú getur ekki verið með einn til tvo stjórnmálaflokka sem ætla að leiða það verkefni.“

Og enn fremur:

„Ég er mjög meðvituð um að það að ganga í Evrópusambandið er verkefni sem þorri þjóðar innar verður að standa á bakvið. Þetta þarf líka að koma frá grasrót sem er ekki bara í pólitísku samhengi, verkalýðshreyfingunni. Þetta þarf að koma frá atvinnurekendum. Atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin í sitt hvoru lagi eru ekki sameinuð um þetta mál. Það sem gerist svo ítrekað með Evrópusambandið er þegar það gengur illa, þegar það koma háir vextir, þá byrjar fólk að vilja ganga inn í ESB.”

***

Þetta var hárrétt greining hjá Kristrúnu á sínum tíma. Eigi að síður er ríkisstjórnin sem hún leiðir komin á fullt skrið að teyma Ísland inn í Evrópusambandið. Í einum af fjölmörgum rúnstykkjafundum sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og skósveinar hennar hafa setið úti í Brussel var skrifað undir að íslenska ríkið tæki upp utanríkisstefnu Evrópusambandsins án nokkurrar umræðu hér á landi. Væntanlega hefur sama fólki verið tilkynnt um að ESB ætli að láta Ísland sæta refsitollum vegna viðskiptahátta Kínverja með kísilmálm.

Utanríkisþjónustan kærir sig kollótta um að Evrópusambandið lýsi viðskiptastríði á hendur efnahagssvæði Vilhjálms Birgissonar. Það gerir íslenska þjóðin hins vegar ekki.

Það var engin krafa uppi í aðdraganda síðustu alþingiskosninga um að Ísland gengi í Evrópusambandið. Sú krafa er hvorki uppi hjá almenningi né atvinnulífinu hvað þá verkalýðshreyfingunni. Ríkisstjórnin kýs því að efna til átaka við þjóðina til þess að sinna áhugamáli embættismanna í utanríkisráðuneytinu og örfárra auðmanna í úthverfum Reykjavíkur.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. ágúst 2025.