Markmiðasetning og eftirfylgni eru rauði þráðurinn í öllu skipulagi. Fyrirtæki sem setja sér ekki skýr langtímamarkmið eiga í erfiðleikum með að marka stefnu, halda fókus og ná forskoti á markaði. Allir verða að vita hvert skal stefna eða hvaða varða er næst á leiðinni og hvað þarf að gera ef tilætlaður árangur á að nást. Sennilega geta flestir verið sammála um þetta en hvernig á að hrinda þessu í framkvæmd?
Með stefnumiðaðri stjórnun geta fyrirtæki náð forskoti á markaði. Í stuttu máli gengur hún út á að ná utan um og þróa áætlanir og stefnu að markmiðum, auk þess að ráðstafa auðlindum og fjármagni til framkvæmda. Burtséð frá fjárhagslegum ávinningi getur stefnumiðuð stjórnun í bland við markaðshneigð haft góð áhrif á fyrirtækjamenninguna. Það skiptir höfuðmáli þegar meta á hvort slíkir stjórnunarhættir beri tilætlaðan árangur.
Stefnumiðuð stjórnun byrjar með ásetningi og markmiðum. Framtíðaráherslur fyrirtækis eiga að vera vel skilgreindar, framkvæmanlegar og innihalda mælanleg markmið og árangursvísa. Það getur skipt sköpum að draga fram áherslur til framtíðar skýrt og skilmerkilega áður en lengra er haldið. Sameiginlegur skilningur er lykillinn að árangri. Innleiðing nýrra aðferða við stjórnun getur verið orkufrek en það þarf einnig að gefa rýninni sem tekur við í framhaldinu góðan tíma því hún er afar mikilvæg. Það þarf stöðugt að yfirfara og endurmeta árangur stefnu og stjórnunar. Fyrirtæki sem ná að tileinka sér þessi vinnubrögð eru betur í stakk búin til þess að bregðast við kvikum markaði og samkeppni. Stefnumiðuð stjórnun og liðsheild getur orðið kjarninn í daglegum takti fyrirtækis sem gengur vel.
Næst er stefnuáætlun mótuð og það krefst stöðumats á fyrirtækinu. Rýni á styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum er ekki verri byrjun en hver önnur. Ná utan um sérstöðu á markaði og koma auga á hvað þarf að bæta. Sú vinna er góður grunnur að hugmyndum um það hvernig eigi að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum. Í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði þurfa stjórnendur að tileinka sér markaðshneigða hugsun og mikilvægt er að djúpur skilningur á vörum eða þjónustu fyrirtækisins sé til staðar. Þá skiptir framboð keppinauta á markaði einnig máli.
Þegar stöðumatið liggur fyrir er hægt að ná utan um hvar fyrirtækið er statt miðað við hvert á að stefna og þá er kominn tími til að taka næstu skref í innleiðingu. Þó að orð séu til alls fyrst er til lítils að tala, horfa á glærur og skipuleggja aðeins í fundarherbergjum, það þarf að láta verkin tala. Hér koma inn þættir eins og verklag, breytingastjórnun og ráðstöfun fjármagns. Vel heppnuð framkvæmd áætlana gerir fyrirtækjum kleift að uppgötva ný tækifæri og virkja mannauð þvert á deildir, svið og starfsstöðvar.
Síðar þarf að fara fram mat á því hvort árangur hafi náðst. Með mælingum og stöðumati má ákveða hvort haldið skal áfram á sömu braut eða hvort enn frekari breytinga sé þörf. Mat á áætluninni er ferli sem aldrei lýkur og dregur fram möguleg mistök og ónýtt tækifæri. Þetta hljómar einfalt en heilmikil áskorun. Ef djúp gjá er á milli nýrrar stefnu og þeirrar vinnustaðarmenningar sem er fyrir í fyrirtækinu getur verið nánast ómögulegt að framfylgja stefnunni.
Sé menning og stefna í takt, verður allt auðveldara viðfangs þar sem fyrirtækjamenningin grípur vegferðina. Þess vegna er mikilvægt að huga að bæði, stefnu og menningu á sama tíma.