Sölufyrirkomulag áfengis skiptir máli, nánar tiltekið að tryggja að unglingum sé ekki selt áfengi. Eina hlutverk hins opinbera er að setja lög um sölufyrirkomulagið og hafa eftirlit með þeim lögum eins og öðrum.

Eigin rannsóknir ríkisstofnunarinnar Á.T.V.R. sýna fyrir árið 2023 að 5% ungmenna fái afgreitt áfengi án athugasemda og ætti eitt og sér að vera tilefni til áminningar í starfi fyrir forstjórann. „Ríkið“ ætlar hinsvegar að slaka á kröfunum og selja til 10% ungmenna á árinu 2024, samkvæmt ársskýrslunni.

Vissulega er ánægjulegt að stofnunin skuli hafa náð að bæta skilríkjaeftirlit upp í 95% Hinsvegar hljóta menn að spyrja hvers vegna á að slaka á kröfunum á þessu ári niður í 90%?

Eins og oftast háttar til með opinberar stofnanir þá er eina eftirlit stofnunarinnar það sem hún veitir sjálfri sér. Árum saman hefur Á.T.V.R. gefið sjálfu sér falleinkunn þegar kemur að skilríkjaeftirliti. Athyglisvert er að stofnunin hefur í framhaldinu einsett sér að vera eini endursöluaðili áfengis hér á landi sem selur unglingum áfengi.

Ívar Arndal forstjóri sér engu að síður ástæðu til þess að dylgja um að þeir aðilar sem selji vín með rafrænum skilríkjum ráði svo „ungmenni undir lögaldri, nýkomin með bílpróf, (og) keyri áfengið út til jafnaldra sinna“. Það hlýtur að sæta undrun að hinn kæruglaði Ívar hafi aldrei kært sjálfan sig eins og sumir af hans leigupennum hafa gert.

90% árangur?

Sleifarlag ríkisstofnunarinnar við skilríkjaeftirlit er sláandi vandræðalegt, sérstaklega þegar haft er í huga að ríkið sjálft heldur úti stafrænni auðkenningarþjónustu sem tryggir 100% öryggi á þessu sviði.

Netverslun Santé hefur aldrei selt ungmenni áfengi enda rafræn skilríki forsenda viðskipta. Sante hefur engin markmið í þessa veru þar sem 100% skilríkjaeftirlit er einfaldlega útgangspunktur. Það er einokunarstofnunin sjálf sem selur ungmennum áfengi og er jafnframt undrandi á að lögregla grípi ekki til aðgerða gegn öðrum.

Í Bandaríkjunum er verslunum sem selja áfengi til ungmenna engin miskunn sýnd og þeir umsvifalaust sviptir verslunarleyfi. Slíkt er auðvitað óhugsandi hér á landi þar sem ríkið refsar jú aldrei ríkinu.

Að selja unglingum áfengi er lögbrot og í ársskýrslunni viðurkennir forstjórinn að hafa framið lögbrot mörg ár aftur í tímann. Þetta hlýtur lögreglan að þurfa að skoða vandlega og þess vegna hef ég sent henni ábendingu um hina ólöglegu áfengissölu sem hið opinbera stundar. Forstjórinn ætlar heldur að fjölga brotunum á þessu ári og þess vegna er mikilvægt að lögreglan bregðist við.

Áfengi í matvöruverslunum?

Áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara og þess vegna passar það illa í hillum matvöruverslana. Á.T.V.R. rekur 52 verslanir um land allt, umtalsvert fleiri en allar stærstu verslanakeðjurnar. Ríkisstofnunin leggur sig fram við að hafa þessar verslanir á fjölförnum stöðum, í verslunarmiðstöðvum og í sumum tilvikum inni í matvöruverslunum.

Á.T.V.R. hóf nýverið að afhenda áfengi í sjö matvöruverslunum sem gengur beinlínis gegn lögum um íslenska verslun með áfengi og tóbak og er skýlaust lögbrot að mati stjórnenda ÁTVR!

Ríkisverslunin rekur sjálf netverslun og afhendir pantanir um allt land. Engin lagaheimild er fyrir rekstri þessarar netverslunar ríkisins og stofnunin hefur marg ítrekað fullyrt að engin megi afhenda vín nema starfsmenn stofnunarinnar. Líklega hefur hinn kæruglaði forstjóri tekið of bókstaflega texta stuðmanna „bara ef það hentar mér“.

Sala á áfengi fer best í sérverslunum vegna þess að það er ekki eins og hver önnur neysluvara. Rökin eru þó ekki þau að sjónrænt áreiti geti kallað fram áfengissýki eða auki almennt neyslu. Rökin eru hinsvegar þríþætt:

  1. Rafræn aldursvottun samræmist illa við rekstur matvöruverslana.
  2. Vöruna þarf að geyma við annað hitastig en almennar neysluvörur
  3. Þjófnaður í matvöruverslunum hefur stóraukist og því allt að því nauðsynlegt að aðgreina þessar vörur frá öðrum.

Dómarar geta aldrei verið þáttakendur í íþróttum af augljósum ástæðum. Alþingismenn þurfa að skilja að þeir geta ekki líka spilað inni á vellinum samhliða dómgæslunni.