Í síðustu viku fjallaði Óðinn um afhroð Íhaldsflokksins Bretlandi og keimlíka stöðu Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Hann spáir því að nákvæmlega eins fari fyrir Sjálfstæðisflokknum í næstu kosningum eins og systurflokknum í Bretlandi í júlí verði ekkert að gert.

Óðinn telur að núverandi forystu sé fyrir margt löngu búin að missa stuðning kjósenda Sjálfstæðisflokksins og kjósendur hafi enga trú á því að hin svokallaða forysta muni allt í einu fara eftir stefnu flokksins þó hún tali þannig nú. Rétt eins og forysta Íhaldsmanna gerði.

Í síðustu viku fjallaði Óðinn um afhroð Íhaldsflokksins Bretlandi og keimlíka stöðu Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Hann spáir því að nákvæmlega eins fari fyrir Sjálfstæðisflokknum í næstu kosningum eins og systurflokknum í Bretlandi í júlí verði ekkert að gert.

Óðinn telur að núverandi forystu sé fyrir margt löngu búin að missa stuðning kjósenda Sjálfstæðisflokksins og kjósendur hafi enga trú á því að hin svokallaða forysta muni allt í einu fara eftir stefnu flokksins þó hún tali þannig nú. Rétt eins og forysta Íhaldsmanna gerði.

Af­hroð Í­halds­flokksins, Sjálf­stæðis­flokkurinn og villi­götur

Breski Íhaldsflokkurinn beið afhroð í þingkosningunum sem fóru fram í þann 4. júlí. Fylgisleysi flokksins kom fáum á óvart enda skoðanakannanir sýnt flokkinn í kringum 20% um langt skeið.

Suella Braverman, innanríkisráðherra til skamms tíma í forsætisráðherratíð Borisar Johnson, skrifaði aðsenda grein í The Telegraph í júlí og lagði mat sitt á afhroðið. Braverman nefnir nokkrar ástæður fylgishrunsins. Þær helstu eru skattamál og innflytjendamál.

Hún segir segir að þessi „hörmulegu" kosningaúrslit hafi ekki verið vegna stefnu eða kosningabaráttu Verkamannaflokksins heldur vegna þess að Íhaldsflokkurinn klúðraði illilega. Flokkurinn hafi ekki staðið við loforð sín um að draga úr straumi innflytjenda, sem aldrei hefði verið meiri, og lækka skatta, sem hækkuðu og hafa ekki verið hærri í 70 ár.

Má segja að Suella hafi meitlað skoðun sína í þessu orðum.

Hvað sem sumum félögum mínum finnst, þá eru kjósendur ekki fábjánar. Þeir sáu hvað við gerðum í embætti og hlustuðu því ekki á það sem við sögðum í kosningabaráttunni, enda skorti þar einlægnina.

Frá því að greinin birtist hefur Braverman ákveðið að bjóða sig ekki fram í forystu í flokknum og segir að sama fólkið og hafi klúðrað stjórn landsins vilji í dag ekki horfast í augu við staðreyndir.

Óðinn telur, að öllu óbreyttu, þá muni fara nákvæmlega eins fyrir Sjálfstæðisflokknum í næstu þingkosningum og af nákvæmlega sömu ástæðu og í tilviki Íhaldsflokksins breska.

***

Skynsamlegt að taka þátt í ríkistjórninni…

Það var rétt af Sjálfstæðisflokknum að taka þátt í myndun ríkisstjórnar með Vinstri grænum og Framsóknarflokki haustið 2017. Í fjögur ár hefði mátt ýta ágreiningsefnum þessara þriggja flokka til hliðar en þó ná stjórnfestu og þokkalegum árangri fyrir fólkið í landinu. Til dæmis halda ríkisútgjöldum í skefjum og þar með verðbólgu lágri.

En þessi ríkisstjórn varð önnur en menn héldu í upphafi. Það vissu allir, sem eitthvað vissu, að vinstri flokkarnir tveir í samstarfinu, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn, myndu vilja eyða annarra manna fé eins og aldrei kæmi nýr dagur og aldrei kæmi gjalddaginn á lánunum.

… en samstarfið varð verra en nokkurn grunaði

En engum datt í hug að Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur einstaklingsfrelsis, hóflegra ríkisútgjalda og lágra skatta, myndi breytast í vinstri flokk. Í stað þess að halda aftur af ríkisútgjöldunum tóku ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins þátt í útgjaldafylleríinu. Oft með svo aumum rökum að halda hefði mátt að þau hafi verið sótt í smiðjur leikskólabarna. Til dæmis þegar opnað var sendiráð Íslands í Póllandi með þeim rökum að á Íslandi væru svo margir Pólverjar!

Niðurstaðan að loknum átta ára samstarfi, lifi ríkisstjórnin út kjörtímabilið, verður sú að ríkisútgjöldin hafa tvöfaldast. Raunaukningin nemur 40-45% sem telst vera Norðurlandamet.

Fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson tók til að mynda þátt í því að tvöfalda framlög til stjórnmálaflokkanna varanlega. Varanlega segir Óðinn, því enginn annar stjórnmálaflokkur á Íslandi mun nokkru sinni lækka aftur framlögin nema hugsanlega Sjálfstæðisflokkurinn.

***

Hallareksturinn hófst fyrir Covid

Hallareksturinn hófst árið 2019 og nam hann 38,9 milljörðum króna eða 51 milljarði á núverandi verðlagi. Þetta var verulegur hallarekstur og hann var þrátt fyrir að skatttekjur væru 30 milljörðum meiri en áætlað var. Þetta var ári áður en Covid hófst og því var sú auma afsökun fyrir gegndarlausum ríkisútgjöldum ekki fyrir hendi.

Óðinn er ekki viss að hinn góði og gegni sjálfstæðismaður muni fyrirgefa forystuleysi flokksins af þessari einu ástæðu og kjósi allt annað en Sjálfstæðisflokkinn.

***

Hver er eiginlega á villgötum?

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kom í viðtal á mbl.is á föstudag og sagði að umræða um ríkisfjármálin væri á villigötum. Hann sagði að rík­is­fjár­mál­in hafi hjálpað til við að draga úr verðbólgu í land­inu.

„Mér finnst að umræðan um þátt rík­is­fjár­mál­anna hafi verið á mikl­um villi­göt­um. Það sýn­ir til dæm­is nýj­asti rík­is­reikn­ing­ur­inn fyr­ir síðasta ár, þar sem af­kom­an var hundrað millj­örðum betri held­ur en fjár­lög gerðu ráð fyr­ir þriðja árið í röð. Af­komu­bati í rík­is­fjár­mál­un­um er gríðarleg­ur og lík­lega ná­lægt því að vera met afkomu­bati.“

Í fréttinni segir að marg­ir hafa gagn­rýnt út­gjalda­aukn­ingu rík­is­sjóðs á síðustu árum en Bjarni seg­ir að af­komu­bati rík­is­sjóðs ár frá ári sé birt­ing­ar­mynd aðhalds í rík­is­fjár­mál­un­um.

„Þannig rík­is­fjár­mál­in hafa verið að hjálpa til við að draga úr verðbólgu í land­inu und­an­far­in tvö ár, að lág­marki.“

Það er raunar brjóstumkennanlegt að fylgjast með forsætisráðherranum í þessari óskiljanlegu málsvörn sem stenst enga skoðun því í henni er ekki nokkurt vit.

En það er einnig aumt að sjá formann Sjálfstæðisflokksins verja stóraukin ríkisútgjöld sem að stórum hluta hafa verið tekin að láni. Og viðurkenna ekki svo að þessi útgjöld hafi valdið verðbólgunni sem landsmenn og fyrirtæki eru að kljást við í dag.

Áætlanagerð ríkisins er greinilega í molum. Þó svo eitt hundrað starfsmenn fjármálaráðuneytisins geti ekki komið með áætlanir sem eru nærri raunveruleikanum, þá er því miður enginn sigur fólginn í því. Það eru raunveruleg útgjöld ríkisins sem valda verðbólgu, ekki áætlanir sem reynast vera kolrangar.

En af hverju skeikar svo miklu? Ástæðan er sú að tekjurnar eru miklu hærri en það eru reyndar útgjöldin líka. Útgjöldin hækka bara ekki jafn mikið og tekjurnar samkvæmt áætlunum.

***

Í Staksteinum Morgunblaðsins í gær var fjallað um ummæli Bjarna. Þar kom fram fróðleg skýring á auknu tekjunum.

En hvernig stend­ur á þess­um tekju­auka? Er hann vegna aðhaldsaðgerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem mesta kátínu vöktu um árið? Nei, þar mun­ar þvert á móti mest um áhrif þrálát­ari og hærri verðbólgu en von­ast var eft­ir og hærra verð á vöru og þjón­ustu, sem skil­ar aukn­um virðis­auka­skatti í rík­is­sjóð.

Óðni kom á óvart hversu Morgunblaðið var harðort í garð formanns Sjálfstæðisflokksins í Staksteinum þar sem blaðið hrakti þessi óskiljanlegu ummæli fyrrum fjármálaráðherrans.

Ef til vill hugsa ritstjórar Morgunblaðsins nú að betra sé að reyna að afstýra því að sama gerist hjá Sjálfstæðisflokknum og gerðist hjá Íhaldsflokknum breska.

***

Óðinn er ekki þeirrar skoðunar að menn eigi að láta stjórnast af skoðanakönnunum. En þær eru hitamælir á ástandið og það er kalt hjá sjálfstæðismönnum. Nýjasta könnun Gallup fyrir júlí sýndi 17,2% stuðning við flokkinn sem er versta mæling frá upphafi hjá könnunarfyrirtækinu.

Ekkert bendir til að forystan Sjálfstæðisflokksins taki þau skilaboð sem birtast í könnunum alvarlega. Hver könnun Gallup á fætur annarri hefur verið sú versta í marga mánuði og forystan jafn forystulaus og áður.

Svo er ekki útilokað að einhverjir kjósendur flokksins munu muni alls ekki snúa til baka fyrr en hin svokallaða forysta Sjálfstæðisflokksins kveður.

Hrærð eins og skyr – rétt eins og þegar hún tók við.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn í síðustu viku.