Það vekur athygli Týs hversu atkvæðalítill nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins virðist ætla að vera. Guðrún Hafsteinsdóttir lagði mikla áherslu á mikilvægi reynslu sinnar úr atvinnulífinu þegar hún bauð sig fram til formanns flokksins í febrúar. Lítið heyrist í Guðrúnu þó svo að ríkisstjórnin ætli að keyra í gegn tvö frumvörp sem munu annars vegar grafa undan verðmætasköpun í landinu og hins vegar vega að sjálfbærni ríkisfjármála.
Einhvern tíma hefði leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins séð sóknartækifæri í slíkri stöðu. Því er ekki að skipta hjá Guðrúnu sem sumir eru farnir að uppnefna Vanilla Hafsteinsdóttir, en það er önnur saga.
Aðför ríkisstjórnarinnar að atvinnulífinu er alvarleg. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra mun með útfærslu sinni á hækkun veiðigjalda gera íslenskan sjávarútveg líkan þeim norska þegar kemur að veiðum og vinnslu. Það er ekki gáfulegt. Rekstur norskrar fiskvinnslu skrapar botninn ár eftir ár. Þetta er meðal annars réttlætt með því að segja að þarna sé verið að réttlæta hlut sjómanna. Staðreynd málsins er að hlutur sjómanna á Íslandi í aflaverðmæti skipa er mun hærri en í Noregi.
Norska leiðin sem Hanna Katrín og ríkisstjórnin ætla að feta mun grafa undan fjárfestingu í landvinnslu og færa þá verðmætasköpun sem nú verður til í frystihúsum á landsbyggðinni úr landi með tilheyrandi afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki. Týr telur einsýnt að þrátt fyrir margföldun veiðigjalda muni þau af þessum sökum aldrei skila ríkinu þeim tekjum sem ríkisstjórnin áætlar. Verðmætasköpunin verður ekki til staðar.
Þá hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp sem tengir bótagreiðslur við launavísitöluna. Þetta er stjarnfræðilega vitlaus tillaga. Bótagreiðslur eru ekki laun fyrir vinnuframlag og lúta allt öðrum lögmálum. Þetta þýðir sjálfkrafa aukningu á bótagreiðslum ríkissjóðs ef framleiðni eykst vegna tækninýjunga eða álíka og ef hagvöxtur mælist. Þetta grefur undan sjálfbærni ríkisfjármála og gerir í raun að verkum að Vilhjálmur Birgisson, Sólveig Anna Jónsdóttir og fleiri semja við Sigríði Margréti Oddsdóttur um hækkanir á bótagreiðslum ásamt öllu hinu á nokkurra ára fresti .
Vígstaða stjórnarandstöðunnar er sterk en það er ákveðin forsenda að menn mæti til leiks.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum VIðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 30. apríl 2025.