Á þessu ári verða liðin 15 ár frá því að lög um sérstakan bankaskatt voru samþykkt hér á landi. Fljótlega í kjölfarið komu svo lög um fjársýsluskatt og sérstakan fjársýsluskatt en skattar þrír leggjast ofan á skuldir, laun og hagnað íslenskra fjármálafyrirtækja.
Eitt af meginmarkmiðunum með álagningu þessara skatta var að íslenska fjármálakerfið tæki þátt í að standa straum af þeim mikla kostnaði sem féll á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins.
Kostnaður af falli bankanna þegar greiddur
Í skýrslu sem Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson unnu árið 2016 að beiðni efnahags- og fjármálaráðuneytisins, varðandi mat á beinum kostnaði og endurheimtum ríkissjóðs af falli bankanna fram til ársloka 2015, komust þeir að því að þessi kostnaður hefði á þeim tímapunkti verið endurheimtur og gott betur.
Það er því bráðum áratugur frá því að eitt helsta markmið laganna var uppfyllt en þrátt fyrir það lifa skattarnir ennþá góðu lífi. Heildarskatttekjur ríkisins af þessum sértæku sköttum námu 191 milljarði króna frá árinu 2010 til 2024 en fyrir árið í fyrra er stuðst við áætlun útfrá fjárlögum. Að raunvirði nemur þessi upphæð um 259 milljörðum á núverandi verðlagi. Þær tekjur sem ríkið hefur haft eftir að tekist hafði að greiða upp kostnað ríkisins vegna hrunsins nema 175 milljörðum króna að raunvirði.
Sérstakur bankaskattur var lækkaður árið 2020 úr 0,376% niður í 0,145%. Fjöldi landa í Evrópu leggja ekki þennan skatt á fjármálafyrirtæki og í þeim löndum þar sem hann er til staðar er hann í langflestum tilfellum umtalsvert lægri en hér á landi. Einnig er rétt að hafa í huga að Seðlabankinn hefur þrefaldað bindisskyldu á innlánsstofnanir á síðustu tveimur árum, úr 1% í 3%, og er bindiskyldan í dag mun hærri en til að mynda á evrusvæðinu.
Sé miðað við mat Seðlabankans á töpuðum vaxtatekjum, vegna hækkunar bindiskyldunnar, hjá stóru viðskiptabönkunum þremur og tekjuskattur dreginn frá er þar um að ræða lítillega hærri upphæð en sem nemur lækkun á upphæð bankaskattsins. Það má því segja að áhrif lækkunar bankaskattsins hafi verið vegin upp og gott betur af hækkun bindiskyldunnar.
Sértæk skattlagning sú langmesta í Evrópu
Í skýrslu sem Intellecon vann fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu á síðasta ári kom fram að álögur ákveðnar af stjórnvöldum á rekstur íslenskra banka eru sennilega þær mestu í Evrópu. Þetta má t.d. sjá á því að skattagreiðslur íslenskra banka námu 1,18% af áhættuvegnum eignum þeirra árið 2022 og var það langhæsta hlutfallið í Evrópu.
Þetta hlutfall var að meðaltali 0,39% í Evrópu og hlutfallið hér á landi því þrefalt hærra. Hlutfallið hér á landi var 60% hærra en þar sem það var næsthæst en það var í Litháen. Hér er rétt að benda á að áhættuvegnar eignir sem hlutfall af heildareignum eru hlutfallslega mjög háar hér á landi í evrópsku samhengi. Væri horft á skattbyrði sem hlutfall af heildareignum skæri Ísland sig enn meira frá öðrum Evrópuríkjum.
Sértæk skattlagning hér á landi er einnig víðtækari en t.d. í samanburði við hin Norðurlöndin. Við erum með þrjá sértæka skatta, Danir og Norðmenn tvo af þeim, Svíar einn og Finnar engan. Það verður ekki séð hvers vegna sértæk skattlagning verður að vera svona mikið umfangsmeiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Slík skattlagning mun eðli málsins samkvæmt koma niður á neytendum með einum eða öðrum hætti.
Eiga þátt í hærri útlánavöxtum
Hærri skattlagning hér á landi en annars staðar í Evrópu er hluti af hinu svokallaða Íslandsálagi sem var nefnt svo í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá 2018. Þetta Íslandsálag skýrir að hluta til hærri útlánsvexti hér á landi en í samanburðarlöndunum en sem dæmi um þætti í Íslandsálaginu eru háar eiginfjárkröfur til íslenska bankakerfisins, háir sértækir skattar og há bindiskylda.
Í skýrslu Intellecon er þetta álag metið vera í kringum 1%, þ.e. að útlánsvextir eru allt að 1% hærri en þeir gætu verið vegna álaga sem stjórnvöld setja á bankakerfið hér á landi. Sú forsenda er gefin í skýrslunni að áhrif af álögunum komi einungis fram í útlánavöxtum og hvergi annars staðar. Þetta er gert til einföldunar svo að hægt sé að færa þetta mat á þátt sem fólk tengir við. Það er hins vegar ekkert lögmál með hvaða hætti þetta birtist eða hvernig hver og ein bankastofnun kýs að mæta þessum álögum. Ætla má að áhrifin skiptist að einhverju leyti á milli viðskiptavina bankanna og áhrifin geti verið ólík hvort um sé að ræða innlánsvexti, útlánsvexti eða önnur kjör og ólík eftir viðskiptavinum.
Þrýstingur á að lækkun skatta skili sér
Heyrst hafa áhyggjuraddir þess efnis að lækkun sértækra skatta yrði ekki skilað með eðlilegum hætti til viðskiptavina bankanna. Þessu er til að svara að líklegast er leitun að Evrópulandi þar sem meiri þrýstingur er á verðlagningu fjármálafyrirtækja en hér á landi.
Ástæðuna fyrir þessu má rekja til þess hversu duglegir Íslendingar eru að færa viðskipti sín á milli innlendra fjármálafyrirtækja. Þetta hefur verið skilgreint sem hreyfanleiki á fjármálamarkaði og sýna kannanir að Íslendingar eru langduglegastir Evrópubúa til þess að færa sig á milli fjármálafyrirtækja. Þessi mikli hreyfanleiki setur mikinn þrýsting á innlend fjármálafyrirtæki sem þurfa að vera stöðugt að leita leiða til þess að halda í eða afla nýrra viðskiptavina.
Mjög skýr vísbending um áhrif af þessum mikla hreyfanleika má t.d. sjá í mismun á inn- og útlánsvöxtum hér á landi sem hefur farið lækkandi á síðustu árum og mælist nú einn sá minnsti í Evrópu samkvæmt skýrslum Evrópska bankaeftirlitsins (EBA).
Svigrúm til lækkunar útlánavaxta
Stjórnvöld hafa margoft talað um mikilvægi þess að vinna að því að lækka útlánavexti hér á landi og færa þá nær því sem gerist í samanburðarlöndunum. Minna hefur þó verið um að farið yrði í aðgerðir gangvart umgjörð fjármálaþjónustu og lánastarfsemi til þess að láta þetta verða að veruleika.
Tækifærin blasa þó við og stjórnvöldum hefur verið bent á þau í gegnum árin. Fyrir utan það að skapa aukið svigrúm til þess að lækka útlánsvexti hér á landi með lækkun á sértækum sköttum myndu innlend fjármálafyrirtæki standa meira jafnfætis við önnur fjármálafyrirtæki í Evrópu þegar kemur að sértækri skattlagningu. Það myndi einnig skila sér í bættri samkeppnishæfni þeirra þannig að þau væru betur í stakk búin að þjóna viðskiptavinum sínum vel.
Lág arðsemi þrátt fyrir hagstæð kostnaðarhlutföll
Ef arðsemi íslenska bankakerfisins hefði yfir langan tíma litið verið verulega betri en annars staðar í Evrópu mætti mögulega réttlæta það að sértækir skattar hér á landi væru hærri en annars staðar í Evrópu. Staðreyndin er hins vegar sú að arðsemin hér á landi hefur í fjölda ára verið að meðaltali lægri en í öðrum Evrópulöndum. Sé horft til raunarðsemi eigin fjár, þ.e. arðsemi að frádreginni verðbólgu, hefur arðsemin verið ein sú lægsta í Evrópu til fjölda ára. Lág arðsemi skrifast ekki á óhagkvæman rekstur eða að bankakerfið hafi ekki hagrætt á síðustu árum því mikil hagræðing hefur farið fram. Kostnaðarhlutföll íslenskra banka eru sambærileg við það sem gerist og gengur hjá öðrum evrópskum bönkum.
Í skýrslu Intellecon kom fram að um þriðjungur af Íslandsálaginu eða 0,32 prósentustig mætti rekja til áhrifa sértækra skatta. Í Hvítbókinni var bent á að lækkun sértækra skatta væri skýrasta tækifæri ríkisins til að draga úr mun á milli innláns- og útlánsvaxta hér á landi.
Íslenska ríkið greiddi 2 milljarða króna í vaxtabætur til íslenskra heimila árið 2023. Á sama tíma innheimti ríkið 20 milljarða króna í sértæka skatta af innlendum fjármálafyrirtækjum sem eru margfalt hærri en að meðaltali í öðrum Evrópulöndum. Bara stóru viðskiptabankarnir þrír greiddu 14,9 milljarða króna í sértæka skatta sama ár eða meira en sjöfalt það sem stjórnvöld greiddu í vaxtabætur.
Höfundur er hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.