Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn í síðustu viku um yfirtöku Arion banka á hlutum Árna Odds Þórðarsonar í Eyri og uppsögn hans sem forstjóra Marels.

Pistill Óðins er hér í fullri lengd, en áskrifendur gátu lesið hann fyrir viku síðan.

Árni Oddur og Þórðargleðin

Það má segja að ein stærstu tíðindi í íslensku viðskiptalífi í mörg ári hafi orðið opinber í síðustu viku þegar Árni Oddur Þórðarson neyddist til að láta af störfum sem forstjóri Marels.

Marel hefur verið bæði eitt glæsilegasta fyrirtæki landsins, bæði stærsta fyrirtækið og verðmætasta félagið í Kauphöllinni. Hlutabréfin hrundu á árinu 2022 og hafa lækkað enn meira í ár. Hæst fór gengi félagsins í 956 í september 2021 en það stendur nú í 349, eftir að hafa farið lægst niður í 327.

***

Skuldsetning Marels hefur aukist mikið undanfarin ár tvö og er nú um 250 milljarðar. Það var reyndar meðvituð ákvörðun stjórnenda félagsins, meðal annars vegna gagnrýni frá hluthöfum sem töldu félagið of lítið skuldsett. En það hjálpar ekki feðgunum Árna Oddi og Þórði Magnússyni á þessum umrótatímum sem nú eru.

Miklar skuldir í Marel veikja stöðu feðganna gagnvart lánadrottnum, bæði Eyris og persónulegum. Reyndar er það svo staða þeirra er talin svo slæm núna að eignarhlutur þeirra beggja, eign umfram skuldir, er sagður lítill sem enginn.

***

Veðsettu ekki heimilið

Það er ljóst að skuldsetning feðganna var miklu mun meiri en flestir héldu. Reyndar var það svo að flestir töldu hana eingöngu vera í Eyri, og þótti flestum nóg um.

Ef það er einhver ein regla sem Bonus pater viðskiptanna, hinn góði og gegni viðskiptamaður – bróðir familias fjölskylduföðurins, fylgir þá er það sú að veðsetja ekki heimilið ef viðskiptin ganga ekki sem skildi.

***

Árni Oddur er skynsamur maður og er það án efa til marks um erfiða stöðu að hann hefur skuldsett heimili sitt, síðast í október, svo mikið að lítið eigið fé er eftir, ef til sölu kæmi.

Óðinn veit að margir ráðlögðu feðgunum, saman og í sitt hvoru lagi, að minnka stöðu sína í Marel þegar gengið var hvað hæst og minnka um leið skuldsetninguna. En þeir höfðu hins vegar, að sögn, óbilandi trú á félaginu. Ekki veit Óðinn hvort villti þeim sýn í þeim efnum, trúin á þetta góða fyrirtæki eða áhættusækni. Hugsanlega hvort tveggja.

***

Prófsteinn

Að mati Óðins er þetta mál ákveðinn prófsteinn á það fyrirkomulag og reglur sem settar hafa verið á íslenskum fjármálamarkaði. Ekki til þess að hengja nokkurn, eins og Steingrímur Sigfússon vildi gera við bankamennina eftir fall viðskiptabankanna, heldur til að læra af því.

Það er til að mynda athugunarefni hvort stjórn Marels hafi sinnt lögbundinni skyldu sinni og gætt að því hvort fjárhagsleg staða Árna Odds sem forstjóra hafi í einhverjum atriðum truflað hann í störfum sínum.

Árni Oddur Þórðarson fékk Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2008. Árni Oddur segir vonandi einn daginn hvort skuldsetning á hlutnum í Eyri hafi þá þegar verið veruleg.
© BIG (VB MYND/BIG)

Strangar reglur eru til dæmis innan bankanna að starfsmenn séu fjár síns ráðandi og ekki að vanskilalistum. Það er vitanlega gert til þess að bág fjárhagsstaðan byrgi þeim hugsanlega sýn í ákvörðunum sínum í störfum sínum.

Óðinn útilokar ekki að slík könnun hafi farið fram í Marel en veltir fyrir sér hvort stjórnin hefði ekki þurft að upplýsa hluthafanna um slíkt, ef svo hefur verið.

***

Eiga að eiga

Óðinn er ekki bara fylgjandi því að stjórnendur félaga, og er þá stjórn meðtalin, eigi hluti í félaginu, heldur telur það nauðsynlegt.

Árni Oddur átti það svo sannarlega en nú er komið ljós að bein áhætta hans af bréfum í Marel var mjög næm fyrir verðsveiflum. Hafði það áhrif á upplýsingagjöf félagsins á einhvern hátt?

Sumir fjárfestar hafa haldið því fram og sumir jafnvel gengið svo langt að segja Árna Odd hafa sagt ósatt um stöðu Marels. Óðinn leggur ekki mat á það.

***

Morgunblaðsfréttin

Meðal þess sem nefnt hefur verið er frétt Morgunblaðsins um að erlendur aðili hugðist reyna yfirtöku á Marel. Margir töldu þessa frétt koma beint úr ranni forstjóra Marels.

Vissulega gat fréttin komið sér ágætlega fyrir Árna Odd en Morgunblaðið hefur ítrekað fréttina og ekki nokkur einasta ástæða til þess að rengja hana.

Ekki síst vegna þess að þegar fréttin birtist hafi aðgerðir viðskiptabankanna tveggja, Arion og Landsbanka, þegar verið hafnar og einhver uppspuninn frétt myndi ef til vill hækka gengið um sinn en ekki til lengdar. Í þessari frétt virðist hins vegar ekkert raunverulegt hald, eins og sést á þróun hlutabréfaverðsins síðan.

***

Þórðargleðin

Óðinn hefur orðið var við Þórðargleði hjá sumum vegna ófara feðganna. Í huga Óðins eru það minnipokamenn sem þannig eru innréttaðir.

Hins vegar varð þarna til óskaplega dýrt skólabókardæmi sem Óðinn vonar svo sannarlega að verði sagt frá undanbragðalaust einn daginn.

Því á því gætu svo margir lært.