Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra flutti stefnumarkandi ræðu á haustfundi Landsvirkjunar. Sú stefna sem ráðherrann boðaði hlýtur að valda öllum þeim sem töldu að núverandi ríkisstjórn ætlaði að hverfa af braut miðstýringar síðustu stjórnar miklum vonbrigðum.

Ráðherrann markaði þá stefnu að fjárfestingu skyldi áfram stýrt af hinu opinbera og að Landsvirkjun, sem er í senn ein verðmætasta eign ríkisins og ein stærsta áhætta skattgreiðenda vegna ábyrgðar þeirra á skuldbindingum þess, skyldi áfram notuð til að fjármagna pólitísk gæluverkefni og atkvæðakaup.

Ragnheiður Elín sagði það skilning sinn að Landsvirkjun ætti að fylgja upprunalegum tilgangi sínum frá 1965, þegar hagkerfið var í viðjum hafta og miðstýringar og „nýta orkuauðlindir landsins til atvinnuuppbyggingar og aukins hagvaxtar.

Á seinni árum hefur verið gerð krafa um að fjárfestingar Landsvirkjunar væru arðsamar en af ræðu Ragnheiðar Elínar að dæma hefur sú krafa verið sett til hliðar í nafni „atvinnusköpunar" og þá helst á ákveðnum landssvæðum eða öllu heldur kjördæmum.

Ragnheiður Elín sagði frá því að enn væri starfandi nefnd á ábyrgð iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem starfar með nokkrum fyrirtækjum að gerð fjárfestingasamninga sem tryggja þessum fyrirtækjum skattalegt hagræði í 10-13 ár!

Hvers vegna í ósköpunum er verið að því? Ef skattalegt umhverfi hér á landi er með þeim hætti að ný fyrirtæki treysta sér ekki til að fjárfesta í því, hvers eiga þá hin sem starfa hér fyrir að gjalda?

Þetta er nefnd sem ríkisstjórn sem ætlaði að byggja heilbrigða umgjörð um atvinnulíf á markaðsforsendum mundi leggja niður en þess í stað gumar ráðherrann af öllum viðtölunum við „fyrirtæki" sem leitað hafa til hans um fyrirgreiðslu.

Voru það þá mistök þegar fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Davíðs Oddssonar breytti stjórnarráðinu úr biðstofu fyrir atvinnulífið? Og hvers vegna skyldu þessi fyrirtæki þurfa að leita til ráðherrans um fyrirgreiðslu fyrir þessi verkefni ef þau eru svona spennandi?

Ráðherrann kann úthlutunarvaldi sínu greinilega vel og beinir orðum sínum til yfirstjórnar Landsvirkjunar og segir: „Nú tel ég að röðin sé komin að Helguvík." Hvaða röð er það? Og hvers vegna skiptir það Landsvirkjun, sem er í eigu og á ábyrgð almennings landinu, máli, að hverju ráðherra telur einhverja röð vera komna?

Þetta sýnir hættuna af því að fyrirtæki eru í opinberri eigu. Hættan er sú að starfsemi fyrirtækisins ráðist fremur af hrossakaupum stjórnmálamanna í atkvæðakaupum en arðsemi. Vitanlega er það Alþingi en ekki ráðherrann sem ræður að lokum hvort að ríkisábyrgð fyrir framkvæmdum verður veitt og kýs stjórn Landsvirkjunar.

En almenningur sem er látinn gangast undir miklar skuldbindingar við slíka ákvörðun hefur engin áhrif á málið. Kjör í stjórn Landsvikjunar er ekki kosningamál fyrir alþingiskosningar og raunar er ekki hægt að hafa áhrif á það í alþingiskosningum þar sem slíkt kjör fylgir ætíð flokksaga. Þetta vita stjórnmálamenn og því geta þeir óhræddir nýtt opinber fyrirtæki til atkvæðakaupa. Störfin sem fylgja slíkum framkvæmdum skila sér strax en fórnarkostnaðurinn af framkvæmdunum kemur fram á mörgum áratugum og hefur því lítil áhrif á endurkjör þeirra sem ákvörðunina taka.

Nýlegt dæmi um þetta var í lok síðasta þings þegar forveri Ragnheiðar Elínar, Steingrímur J. Sigfússon, kom í gegn ívilnunum, beinum niðurgreiðslum og orkusamningi við kísilver PCC á Bakka, sem er í kjördæmi Steingríms. Ragnheiður Elín vill ekki snúa af þeirri braut heldur telur röðina komna að Helguvík sem er einmitt í kjördæmi hennar.

Ragnheiður Elín vék að kísilveri PCC á Bakka á haustfundinum og sagðist telja að það verkefni yrði atvinnulífi á Norð-Austurlandi og landinu öllu mikil lyftistöng. Það er rétt að mörg störf munu skapast við þetta verkefni en þar með er ekki sagt að verkefnið verði atvinnulífinu lyftistöng.

Til að meta hvort svo sé þarf að svara tveimur spurningum. Í fyrsta lagi hvort að arðsemin af verkefninu sé viðunandi og í öðru lagi hvaða önnur mögulegu not eru fyrir orkuna ef hún er ekki nýtt í þetta verkefni og hver er arðsemi þeirra verkefna er.

Arðsemi raforkusölu hefur verið mikið rannsökuð undanfarin ár. Páll Harðarson skrifaði úttekt fyrir Landsvirkjun árið 1998 sem fékk heitið „Mat á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju á Íslandi 1966-1997".

Niðurstaða hans miðað við brattar forsendur var að arðsemi fjárfestinga hafi verið 4,7% að raungildi sem er hærri en vaxtakostnaður fyrirtækisins en þar með er ekki sagt að hún hafi verið hærri en fórnarkostnaður fjárbindingar þess.

Þorsteinn Siglaugsson skrifaði tímamótaskýrslu fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands árið 2002, „Greinargerð um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar". Þar benti hann á þá grundvallarreglu fjármálafræðinnar að fjármagnskostnaður verkefnis væri óháður fjármögnun þess, heldur ræðst hann af áhættu verkefnisins sjálfs.

Fjármagnskostnaður jafngildir fórnarkostnaði fjármagns, það þýðir að fjármagnskostnaður framkvæmdar er jafn fjármagnskostnaði annarra jafn áhættusamra verkefna á markaði. Í stað þess að ráðast í framkvæmd eins og Kárahnjúka hefði verið hægt að fjárfesta í samkynja áhættu á markaði, það er öðrum raforku- og álfyrirtækjum. Þorsteinn sýndi fram á í skýrslu sinni að ef notuð var ávöxtunarkröfu á álfyrirtæki og orkufyrirtæki sem skráð eru á markað við mat á fjárfestingu Landsvirkjunar á Kárahnjúkum að þá var tap af henni.

Hvernig má það vera? Er ekki Landsvirkjun rekin með hagnaði? Það svarar ekki röksemd Þorsteins því hún gengur út á að hagnaðurinn sé ekki nægur miðað við þá áhættu sem tekin er í fjárfestingunni.

Hugsum einfalt dæmi til skýringar. Jón sér um að ávaxta fé fyrir Gunnu. Honum stendur til boða að kaupa tvö mismundandi skuldabréf á þúsund krónur hvort. Bæði bréfin eru til þrjátíu ára og greiða vexti árlega. Annað er á markaði og ber 7% vexti. Hitt skuldabréfið sem er jafn áhættusamt og fyrra bréfið ber hins vegar einungis 3,5% vexti. Jón kaupir síðari bréfið.

Að nokkrum árum liðnum verður Gunna óánægð með árangur Jóns og ber þá kvörtun upp við hann, er það þá gild skýring hjá Jóni að skuldabréfið sé ekkert svo slæmt það hafi jákvætt sjóðsflæði upp á 35 krónur á hverju ári?

Gunna sé bara kvartgjörn og gráðug! Nei Jón borgaði 1.000 krónur fyrir skuldabréf hvers virði var einungis 567 krónur og verðmæti skuldabréfsins var algjörlega óháð því hvort að Gunna fjármagnaði kaupin með eigin fé eða lánsfé og þá á hvaða kjörum. Gunna hefði átt að fá 70 krónur á ári og mismunurinn á því og 35 krónum er fórnarkostnaðurinn af mistökum Jóns.

Gagnrýni Þorsteins á arðsemi orkusölu Landsvirkjunar til stóriðju er sama eðlis og í dæminu hér að ofan. Tap almennings af Landsvirkjun er munurinn á hagnaði Landsvirkjunar og þeim hagnaði sem fjármunirnir hefðu skilað í annari jafn áhættusamri notkun.

Nýlega hafa komið út tvær skýrslur sem renna enn frekari stoðum undir gagnrýni Þorsteins. Annars vegar skýrsla sem  Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út í desember síðastliðnum eftir Ásgeir Jónsson og Sigurð Jóhannesson, „Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966- 2010".

Niðurstaða hennar er enn verri en niðurstaða Páls Harðarsonar eða að nafnávöxtun raforkusölu til stóriðju sé ekki nema 5%. Að teknu tilliti til verðbólgu er arðsemi orkusölu til stóriðju því hverfandi og langt undir fórnarkosnaði. Hin skýrslan er úttekt McKinsey, „Charting a growth path for Iceland".

Þar kemur fram að þrátt fyrir að framleiðni vinnuafls í orkuiðnaði sé góð, er framleiðni fjármagns mun minni en í Noregi og ef það er ekki nógu slæmt þá er framleiðni fjármagns í orkuvinnslu sú lægsta meðal atvinnugreina í íslensku atvinnulífi. Framleiðni fjármagns í næst verstu atvinnugreininni, landbúnaði, er tvöfalt hærri og framleiðni í sjávarútvegi er nærri nífalt hærri sem skýrir hvers vegna þeir sem halda að „auðlindarenta" falli að himnum ofan benda alltaf á sjávarútveginn en ekki orkuvinnslu. Tapið af Kárahnjúkum sem Þorsteinn benti á kemur fram í þessari sóun á orkuauðlindinni.

McKinsey bendir á lausnir til að bæta framleiðni orkuvinnslu og telja að ef það tækist að tengja orkumarkað á Íslandi við Evrópu geti arður Íslands af orkusölu orðið álíka og arður Noregs af olíuvinnslu.

Ragnheiður Elín nefndi líka McKinsey til sögunnar í ræðu sinni og þá ábendingu þeirra að fjárfesting hér á landi sé lág en túlkar hana þannig að það sé jákvætt fyrir Ísland að fjárfesta enn frekar í orkufrekri starfsemi. Sú túlkun er ofar skilningi Óðins.

Mckinsey benda á að orkukerfi Íslands yrði hagkvæmara með lagningu sæstrengs vegna þess að ekki væri lengur þörf að vera með 15% umframgetu í raforkukerfinu þar sem hægt væri að reiða sig á flutning raforku um strenginn til Íslands ef þörf krefði.

McKinsey benda einnig á að miklu hærra verð fengist fyrir orkuna í Evrópu en hér á landi þar sem mikil spurn er eftir endurnýjanlegum orkugjöfum í Evrópu til þess að Evrópulöndin geti staðið við skuldbindingar sínar um hærra hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa. Íslensk orka væri því ekki að keppa við ódýrt jarðgas frá Mið-Austurlöndum eins og í álgeiranum heldur við  óhagkvæma endurnýjanlega orkugjafa eins og vindmyllur.

Framkvæmdastjórar Landsvirkjunar sýndu á fundinum dæmi um nýlega orkusölusamninga í Bretlandi til 15-35 ára á verði sem 3,5-5 falt hærra en orkuverð á Íslandi. Ef það er gerlegt fyrir Ísland að gera slíka samninga í Bretlandi og finna fjárfesta sem eru tilbúnir að taka áhættuna af því að leggja sæstreng, þá er arðsemin af því fórnarkostnaðurinn af því að selja orku til kísilvers á Bakka eða álvers í Helguvík.

Önnur jákvæð áhrif lagningu sæstrengs væri meiri áhættudreifing í rekstri Landsvirkjunar. 73% af orkusölu félagsins er til einnar atvinnugreinar, álframleiðslu. Jafnvel þótt áliðnaðurinn komist upp úr núverandi niðursveiflu þá kennir sagan okkur að fyrirtæki koma og fara og þótt ál verði vafalítið mikilvægt í framtíðinni að þá er engin ástæða til að ætla að núverandi álfyrirtæki eða framleiðsluaðferðir þeirra verði það. Þess vegna er gott fyrir Landsvirkjun að opna fleiri markaði fyrir orkuna, það mundi jafnframt styrkja samningsstöðu fyrirtækisins þegar það kemur að endurnýjun núverandi orkusamninga.

Ef það er einhver röð þá er hún ekki komin að Helguvík heldur að því að kanna hvernig nýta megi orkuauðlindir landsins með arðbærustum hætti.

Það er öfugsnúið þegar Ragnheiður Elín segir á haustfundinum:

„Þá megum við ekki gleyma þeim fyrirtækjum sem hafa fjárfest hér á landi í gegnum tíðina og staðið með okkur í gegnum sætt og súrt. Hafa treyst okkur og átt í farsælum viðskiptum til áratuga. Okkur er nauðsynlegt að hlúa að þeim fyrirtækjum sem dregið hafa vagninn og sýnt öðrum að hér sé hagsælt að starfa."

Orkusala Landsvirkjunar byggir á viðskiptalegum forsendum og við getum ekki búist við neinu öðru af viðsemjendum félagsins en að þeir munu hér eftir sem hingað til líta eftir eigin hagsmunum, ef við lítum hins vegar ekki sjálf eftir okkar hagsmunum þá mun enginn gera það fyrir okkur. Það er kominn tími til að hlúa að skattgreiðendum þeim sem hafa fjármagnað og ábyrgst rekstur Landsvirkjunar með því að láta á það reyna hvort það sé gerlegt og hagkvæmt að leggja sæstreng til Bretlands.

Í síðasta mánuði lagði Ragnheiður Elín fram skýrslu til Alþingis um það mál og sagði meðal annars: "Hver áhrifin verða er hins vegar enn að mörgu leyti óljóst og því þörf á áframhaldandi gagnaöflun áður en unnt er að taka upplýsta afstöðu til slíks verkefnis."

Væri ekki einfaldast að byrja á að taka upplýsta afstöðu til frekari orkusölu og orkufrekrar stóriðju? Talsmenn frekari orkusölu til stóriðju þurfa að svara því hvers vegna framleiðni fjármagns í orkuvinnslu er svona lág. Þessar upplýsingar og rannsóknirnar sem nefndar eru hér að ofan liggja fyrir og það er til lítils að safna upplýsingum ef þær eru ekki notaðar eða einungis notaðar þegar það hentar málsstað valdhafanna.

Einhver kann að spyrja hvaða áhrif það hafi á atvinnustig á Íslandi ef orkan er ekki notuð innanlands. Þetta er jafngilt því í dæminu hér að ofan um skuldabréfið sem Jón keypti fyrir Gunnu að Jón svaraði Gunnu: „Ef ég hefði ekki keypt þetta skuldabréf, þá hefðirðu ekki fengið 35 krónur á ári." Sem er að vísu rétt en hún hefði getað gengið 70 krónur. Ef orka er seld um sæstreng verða ekki til störf sem stjórnmálamenn geta úthlutað í sín kjördæmi en það fæst fjármagn fyrir orkuna, sem leiðir til lægri skatta en ella væri og skilar orkufyrirtækjum og tengdum greinum auknum arði.

Fjármagnið sem þannig kemur inn í landið nýtist svo í aðra fjárfestingu sem mun nýta sér það vinnuafl sem ekki er þá bundið í niðurgreiddum störfum í kísilveri og vonandi verður sú fjárfesting ekki miðstýrð. Til að búa í haginn fyrir það ætti Ragnheiður Elín að einbeita sér að því að búa öllum fyrirtækjum viðunandi starfsskilyrði en ekki einungis þeim ævintýramönnum sem naga þröskuldinn á skrifstofu ráðherrans. Ef það er gert er engin ástæða til að óttast að fjárfestar nýti ekki arðbær tækifæri. Það má margt segja fégræðginni til hnjóðs, en að hún sé ósjálfbjarga er ekki þar á meðal.