Sá sem veitir mannkyninu fegurð er mikill velgerðarmaður þess. Sá sem veitir því speki er meiri velgerðarmaður þess. En sá sem veitir því hlátur er mestur velgerðarmaður þess.
Bréf til Láru, desember 1924.

Hundrað árum eftir að Þórbergur sendi bréfið til Láru, sendu Arion banka menn bréf til Íslandsbanka. Óðinn sá enga sérstaka fegurð í bréfi Arion banka manna en þar kann að leynast speki, þó óskaplega djúpt sé á henni.

En Óðinn brosti upphátt – þannig að jafnaðist á við hlátur - þegar hann las bréfið. Enda óskaplegt furðuverk.

Í pallborðsumræðum á Viðskiptaþingi í síðustu viku var rætt um það hvort stjórnarmálamenn skilji viðskiptalífið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins var þeirrar skoðunar að svo væri ekki, að stjórnmálamenn skilji almennt ekki viðskiptalífið. Og viðskiptalífið skilji ekki stjórnmálin. Bréf Arion banka manna virðist styðja kenningu Sigmundar Davíðs.

***

Nær útilokað

Það er nær útilokað að Samkeppnisstofnunin muni samþykkja samruna þessara tveggja banka. Sumar ástæðurnar blasa við en aðrar munu koma okkur skemmtilega á óvart – enda starfsmenn stofnunarinnar uppátækjasamir með endemum þegar þeir fjalla um skiptingu markaða.

Einnig er vert að minnast þess að ný ríkisstjórn tók við rétt fyrir síðustu jól. Sú ríkisstjórn hefur leiðir til að koma í veg fyrir samruna banka svona ef Samkeppnisstofnunin myndi óvænt samþykkja samrunann með vægum skilyrðum.

***

Vissulega hagræðing

Það er auðvitað rétt sem fram kemur í bréfinu að mikið hagræði yrði af því að reka færri banka á Íslandi. Arion banki metur hugsanlegt hagræði af sameiningu við Íslandsbanka 5 milljarða króna á ári. Fróðlegt væri að sjá þann útreikning, því sú tala er óralangt frá því sem Óðinn hefði talið að hægt væri að hagræða.

Óðinn hefur undir höndum verðmat sem Akkur-greining gerði. Þar segir að hagræðingin geti numið 13-24 milljörðum króna. Það verður að segjast að það er mikill akkur í þessu Arion banka menn, svo mikið ber í milli.

Logi Einarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Við ríkisstjórnarborðið situr fyrrum formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Sú ágæta kona skilur óskaplega fátt og alls ekki rekstur banka. Enginn í Félagi fólksins, sem verður að sögn fljótlega flokkur, skilur hugtakið arðsemi eigin fjár. Þau hins vegar kunna að leggja saman hagnað bankanna og fá óskaplega marga milljarða út. Segið svo að grunnskólarnir hafi ekki gert sitt gagn.

Samfylkingin er, þrátt fyrir Kristrúnu Frostadóttur, ennþá gamaldags kreddusósíalistaflokkur. Fæstir ef nokkrir þingmanna hans myndu styðja sameiningu Arion banka og Íslandsbanka. Viðreisn hallar sér til vinstri í flestum málum svo þingmenn flokksins eru ólíklegir trufla Samfylkingu og Félag fólksins í lagasetningu sem myndi torvelda sameininguna.

***

Stærsta álitamálið

Bankamarkaðurinn á Íslandi er fákeppnismarkaður og yrði enn meiri fákeppnismarkaður eftir sameiningu. En hversu mikið myndi samkeppnin minnka? Það er erfitt að segja til um.

Í áliti Samkeppnisráðs 8/2000, þar sem fjallað var um fyrirhugaðan samruna Búnaðarbanka Íslands hf. og Landsbanka Íslands hf. – samruna sem aldrei varð - var fjallað um samkeppni:

Þegar keppinautum fækkar og markaðsráðandi staða verður til eða þegar fákeppni ríkir er samkeppninni hætta búin. Fyrirtæki hafa ekki lengur sama vilja og getu til að keppa eða þau taka gagnkvæmt tillit hvert til annars. Til að örva samkeppni og koma í veg fyrir samkeppnishömlur við þá stöðu sem að framan er lýst þarf skörp samkeppnislög sem færa samkeppnisyfirvöldum nauðsynlegar heimildir til að grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppræta hömlurnar. Annars fer þjóðarbúið á mis við þann ávinning sem hlýst af virkri samkeppni.

Ekki verður séð að Arion banka mönnum hafi í bréfi sínu tekist að svara einmitt þessum sjónarmiðum.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn . Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.