Óðinn fjallaði í byrjun júní um stýrivexti, dansferð Bjarna Benediktssonar til Malaví, opnun sendiráðs í Madríd, forsetakosningar og bréf Sunnu Valgerðardóttur, sem næstum var hlutlaus fréttamaður fyrir ekki svo löngu.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar og minnkar og vandi hans dýpkar. Nú þegar er orðin veruleg óþreyja með sumra þingmanna með endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf sem hófst aðeins fyrir tveimur mánuðum. Nú síðast með ákvörðun matvælaráðherra í hvalveiðimálinu.

Hér á eftir er pistill Óðins, sem birtist í Viðskiptablaðinu 5. júní ,í fullri lengd

Óðinn fjallaði í byrjun júní um stýrivexti, dansferð Bjarna Benediktssonar til Malaví, opnun sendiráðs í Madríd, forsetakosningar og bréf Sunnu Valgerðardóttur, sem næstum var hlutlaus fréttamaður fyrir ekki svo löngu.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar og minnkar og vandi hans dýpkar. Nú þegar er orðin veruleg óþreyja með sumra þingmanna með endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf sem hófst aðeins fyrir tveimur mánuðum. Nú síðast með ákvörðun matvælaráðherra í hvalveiðimálinu.

Hér á eftir er pistill Óðins, sem birtist í Viðskiptablaðinu 5. júní ,í fullri lengd

Forsetakjör, Seðlabankinn og fall verðbólguríkisstjórnarinnar

Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru á góðri leið með að lama hagkerfið. Rétt eins og þeim var ætlað gera til að drepa verðbólguna. Það mun hins vegar margt drepast í leiðinni.

Einu hjólin sem snúast enn af fullum krafti eru ríkishjólin. Þó næstum öllum sé ljóst að útgjaldastefna vinstri stjórnarinnar er helsti valdurinn að verðbólgunni. Því er skaðinn af vaxtastigi Seðlabankans á ábyrgð stjórnarinnar.

***

Dansferð Bjarna Ben til Malaví

En svo virðist vera að eina fólkið í landinu sem ekki sjái sökudólg verðbólgunnar séu sökudólgarnir sjálfir, ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Ríkissjóður tekur í hverjum mánuði lán fyrir rekstrarhalla sínum.

Meðal annars fyrir dansferð til Malaví vegna 35 ára samstarfsafmælis. Ríkið skortir vissulega peninga en enginn skortur er á útgjaldahugmyndum.

Það er ljóst að forsætisráðherrann getur að minnsta kosti fengið vinnu sem hugmyndasmiður á auglýsingastofu eftir að stjórnmálaferlinum líkur.

***

Sendiráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar

Sá ráðherra sem allir halda að taki við af forsætisráðherranum er utanríkisráðherrann. Sá berst fyrir því að stofnsett sé sendiráð í Madríd á Spáni.

Rökin eru þó ekki alveg jafn vitlaus og rök sama ráðherra fyrir nýlega opnuðu sendiráði í Póllandi. En þau voru að svo margir Pólverjar byggju á Íslandi!

Rökstuðningurinn fyrir sendiráði á Spáni er sá að svo margir eigi sumarhús á Spáni og álag á ræðismenn sé orðið mikið. Væri þá ekki rétt að staðsetja sendiráðið á Benidorm?

Auðvitað þarf ekki sendiráð. Þetta er allt saman þvæla. Það þarf ef til vill fleiri hendur hjá ræðismönnunum og ríkið getur útvegað það fólk. En það ágæta fólk sem hefur fjárfest í sumarhúsunum þarf einfaldlega sjálft að standa straum af kostnaðinum við að týna passanum.

Það þarf ekki íslenska sendiráðsstarfsmenn að prófa alla veitingastaði í Madríd og öll fínustu vín veraldar vegna þess verkefnis.

Sumir sjálfstæðismenn vilja kenna Vinstri grænum og framsóknarmönnum um 41% útgjaldaaukningu ríkisins að raunvirði í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þar eru menn að ljúga að sjálfum sér.

***

Forsetakjörið

Flestir töldu að leið Katrínar Jakobsdóttur yrði greið í forsetastól. Forysta Sjálfstæðisflokksins studdi hana leynt og ljóst. En hinn almenni sjálfstæðismaður var ekki endilega á sömu buxunum.

Þeir hafa reyndar týnt tölunni hratt undanfarna mánuði en flokkurinn mælist aðeins með 18% fylgi samkvæmt nýjustu Gallup könnuninni fyrir maí.

Ætli flestir sjálfstæðismenn séu ekki þeirrar skoðunar Katrín Jakobsdóttir sé hin mætasta kona og hefði getað sinnt forsetaembættinu með ágætum? Ætli hinir sömu séu ekki þeirrar skoðunar að hún eigi embættið ekki skilið?

Óstjórnin hefur nefnilega verið slík á þeim tíma sem hún var forsætisráðherra að margir töldu hana einfaldlega ekki eiga embættið skilið. Það er eiginlega allt í ólestri á Íslandi í ríkismálunum — ríkisfjármálunum, ríkisheilbrigðiskerfinu, ríkismenntakerfinu, ríkishælisleitendakerfinu og verðbólgan er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

En eru þetta ekki um leið skilaboð til Sjálfstæðisflokksins?

***

Útfararstjóri Vinstri grænna

Þann 28. apríl 2024 var Sunna Valgerðardóttir hlutlaus fréttamaður á Ríkisútvarpinu og stýrði meðal annars þættinum Vikulokunum.

Þann 29. apríl varð Sunna Valgerðardóttir starfsmaður Vinstri grænna.

Björn Bjarnason fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins fjallaði um yfirlýsingu Sunnu um ríkisstjórnarsamstarfið:

Í gær (3. júní) birti Sunna langa Facebook-greiningu á stöðu VG í ljósi skoðanakannana og misheppnaðrar tilraunar Katrínar Jakobsdóttur til að verða forseti. Uppgjafartónninn í greiningu Sunnu bendir til að hún telji VG á grafarbakkanum.

Hún túlkar nýjasta Þjóðarpúls Gallup, 3,3% fyrir VG, á þann veg að við kunni að blasa þing að loknum kosningum án VG í fyrsta sinn á 25 árum frá stofnun flokksins. Hún segir að ekki sé við flokkinn að sakast heldur samstarfsflokka hans í ríkisstjórn frá 2017 undir forsæti flokksformannsins, Katrínar Jakobsdóttur. Í lokin er hún þó á báðum áttum, vinstrið hafi líka brugðist.

Sunna nefnir síðan nokkur mál frá síðustu sex árum sem hún telur hafa skaðað VG: „Landsréttur, brottvísanir, Ásmundarsalur, dómsmál, þyrluferð, lögregluofbeldi, Samherji, bankasala og svo mætti lengi telja“. Það einkennir öll þessi mál sem þarna eru nefnd að ekkert þeirra ristir djúpt en þau hafa hins vegar öll verið blásin upp af fréttastofu RÚV.

Greiningin er í raun hluti af grafskrift VG. Að flokkur fráfarandi forsætisráðherra sé í andarslitrunum vegna þessara mála að mati fréttamanns sem hefur sérhæft sig í pólitískum fréttum og snýr sér nú að stjórnmálum er til marks um vinnubrögð og mat í fjölmiðlun frekar en stjórnmálum.

Sunna ætlar að hræða fólk til að halda lífi í VG með því að verið sé „að teppaleggja grimmt fyrir öfluga hægrisveiflu út um allan heim og þar [séum] við sannarlega ekki eyland“. Hún víkur að Höllu Tómasdóttur, nýkjörnum forseta með þessum orðum: „En pastellitaðir hálsklútar eru sennilega meira sjarmerandi en lítt sýnilegur öryggisventill í ríkisstjórninni.“ Hún spyr: „Hversu stór hluti þeirra sem kalla sig vinstrisinnuð ætli hafi sett X við Katrínu Jakobsdóttur?“ Og hún svarar: „25 prósent setti X við Katrínu, þar af var hægrið líklega dágóður slatti.“

Niðurstaða hennar er að reiði og vonbrigði vinstrisinnaðra kjósenda vegna samstarfs VG og Sjálfstæðisflokksins séu „einn veigamesti þátturinn í því að hægrisinnaður fulltrúi kapítalismans vann nokkuð sannfærandi sigur í baráttunni um Bessastaði. Vinstrið kann að vera vont við sig,“ eru lokaorðin.

Réð þingflokkur VG útfararstjóra til starfa í lok apríl 2024?

Þessi pistill Sunnu er til marks um að ríkisstjórnarsamstarfið er nær dauða en lífi og greining Björns Bjarnasonar er ákaflega gott innlegg. Reyndar er það svo að menn geta treyst á dómgreind Björns í öllum málum.

Nema einu. Þegar hann fjallar um störf frænda síns Bjarna Benediktssonar.

Rétt er þó að taka fram að Björn var harður andstæðingur Icesave samningsins síðasta sem Bjarni Benediktsson af einhverjum óskiljanlegum ástæðum studdi. Í kjölfarið studdi Björn framboð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur gegn Bjarna Benediktssyni á landsfundi 2013.

***

Óðinn hefur meiri áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum en vinstri grænum. Óðinn gerir ekki þá kröfu til Björns að hann gagnrýni Bjarna Benediktsson opinberlega.

En er ekki rétt að hann setjist niður með Bjarna Benediktsson og bendi honum á hversu alvarlegum vanda Sjálfstæðisflokkurinn er í?