Vegna umfjöllunar Viðskiptablaðsins í síðustu viku er rétt að taka fram að samkvæmt lögum um opinber innkaup er skylt að bjóða út vöru og þjónustukaup ríkisins ef upphæðin er yfir ákveðnum viðmiðunarmörkum sem eru í dag 21.041.000 kr.
Í mjög góðu viðtali við forstjóra Ríkisskaupa í sama blaði bendir hún réttilega á að útboð geta skilað miklum árangri og nefnir nýtt dæmi um sameiginleg innkaup opinberra aðila á raforku en þar náðist fram 2 milljarða króna ávinningur á samningstímanum. Viðskipti ríkisins við eitt fyrirtæki á sviði loftmynda var 120 milljónir á síðasta ári án útboðs og því ber skilyrðislaust að bjóða verkefnið út. Útboðið var, er og verður unnið í samstarfi við Ríkisskaup og nú er verið að fara yfir þá annmarka sem voru á útboðsgögnum samkvæmt niðurstöðu kærunefndar útboðsmála.
Það er með ólíkindum að það hafi farið fram hjá Viðskiptablaðinu að ég mun á þessum þingvetri leggja fram frumvörp þar sem stofnunum sem heyra undir ráðuneytið verður fækkað verulega. Þar er m.a. gert er ráð fyrir að Landmælingar Íslands heyri sögunni til. Lögbundnum hlutverkum stofnunarinnar verður sinnt áfram í þeirri stofnun sem tekur við og tryggt að stofnunin sé ekki í samkeppnisrekstri.