Um langa hríð hefur fjöldi embættismanna sem starfa hjá Eftirlitsstofnun EFTA fylgst áhyggjufullur með þróun mála hér á landi.

Gráir fyrir járnum hafa þeir fylgst með því hvernig eitt fyrirtæki hefur nánast sölsað undir sig allan markaðinn með bílalúguapótek á höfuðborgarsvæðinu.

***

Það kom því Tý ekki öldungis á óvart að ESA hafi látið til skarar skríða gegn fjárfestingafélaginu Skel á dögunum. ESA hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd samningsins um evrópska efnahagssvæðið og er markaðurinn með bílalúguapótek einn af grundvallaratriðum þess samnings. Naut ESA aðstoðar frá Páli Gunnari Pálssyni og hans fólki í Samkeppniseftirlitinu við rannsóknina.

© Samsett (SAMSETT)

Lyfjaval, sem er í eigu Skeljar, rekur fimm bílalúgupótek á höfuðborgarsvæðinu og virðist brotaviljinn til að ná algjörum undirtökum á bílaapótekamarkaðnum vera slíkur að félagið lokaði hefðbundnu apóteki í Mjódd á síðasta ári. Með þeirri ákvörðun nötraði hinn sameiginlegi markaður Evrópu og náðu drunurnar inn á borð Árna Páls Árnasonar, varaforseta stjórnar ESA.

***

Þegar litið er á heildarstærð markaðarins með lyf hér á landi er Lyfjaval að vísu með litla markaðshlutdeild. Velta félagsins er aðeins um þrír milljarðar á meðan sameiginleg velta Lyfju og Lyf og heilsu er um þrjátíu milljarðar.

En það virðist ekki skipta máli og vafalaust má rekja það til hversu mikið vægi ESA telur bílaapótekamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu hafa í hinu stóra samhengi hlutanna. Í raun og veru er þessi markaður ekki afmarkaður. Þvert á móti. Þannig geta Evrópumenn skroppið í bíltúr og komið til landsins með Norrænu og brunað svo suður til að kaupa sér íbúfen, nikótíntyggjó og apótekaralakkrís í lúguapóteki .

Tý skilst að slíkir bíltúrar njóti vaxandi vinsælda á meginlandinu. Þegar til Reykjavíkur er komið hafa ökuþórar úr litlu að moða þegar kemur að vali á bílalúguapóteki og
yfirgnæfandi líkur eru á því að þeir renni í hlað Lyfjavals.

Týr þakkar Óðni fyrir að embættismenn ESA hafi loks gert sér grein fyrir alvarleika þessa máls.

Týr er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 23. október 2024.