Fyrir áratug gaf ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman út skýrslu um samkeppnishæfni íslenska fjármálakerfisins og benti þar á hvað betur mætti fara. Þegar skýrslan kom út var enn verið að vinna úr beinum afleiðingum fjármálahrunsins. Auk þess var rekstrarkostnaður bankanna hár í norrænum samanburði og þörf á breytingum að mati skýrsluhöfunda. Þá var Ísland í 68. sæti af 144 þjóðum í alþjóðlegri úttekt yfir samkeppnishæfni fjármálageirans, á meðan nágrannaþjóðir okkar vermdu flestar efstu 12 sætin. Við stóðum þeim því langt að baki og ljóst að mikið verk væri óunnið.

Nú, tíu árum síðar, er rétt að líta um öxl og meta hvernig til hefur tekist. Náðst hefur verulegur árangur í átt til hagræðingar í fjármálakerfinu, m.a. með fjárfestingu í sjálfvirknivæðingu en einnig auknum samrekstri innviða, sem var í samræmi við ábendingar Oliver Wyman. Rekstrarkostnaður bankanna hefur lækkað um 39% frá árinu 2011, eða sem samsvarar um 50 milljörðum á ári á föstu verðlagi. Slíkt hefur skapað svigrúm til að sinna betur þörfum viðskiptavinanna.

Þá hefur sjálfvirknivæðingin þýtt að við afgreiðum okkur sjálf í gegnum síma og tölvur og nánast hætt að bíða í biðröðum eftir afgreiðslu í útibúum. Vaxtamunur heimila sem og annar kostnaður heimila vegna bankaþjónustu er nú nokkurn veginn á pari miðað við hin Norðurlöndin samkvæmt skýrslu starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra sem kom út á síðasta ári. Hreyfanleiki neytenda á fjármálamarkaði mældist meiri en í öllum ríkjum ESB  samkvæmt könnun Gallup fyrir SFF sem birt var fyrr á þessu ári enda gerir tæknin okkur auðvelt að færa viðskipti okkar þangað sem kjörin bjóðast best hverju sinni.

Skökk samkeppnisstaða 

Ofantalið eru atriði sem eru að talsverðu leyti í höndum fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Oliver Wyman benti á árið 2014 að íslensk fjármálafyrirtæki stæðu höllum fæti í alþjóðlegum samanburði þegar kæmi að ytra umhverfinu. Háar eiginfjárkröfur og háir sértækir skattar leiddu af sér hærri kostnað við að veita fjármálaþjónustu en í nágrannaríkjunum.

Þannig er staðan enn í dag. Lagðir eru þrír sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki hér á landi, en upphaflega var stefnt að því að skattlagningin yrði tímabundin. Ekkert hinna Norðurlandanna hefur gengið jafn langt í sértækri skattlagningu á fjármálafyrirtæki. Nýlega hefur bæst við kostnaður af svokallaðri óvaxtaberandi bindiskyldu af hálfu Seðlabankans, sem hækkað hefur úr 1% í 3% á rúmu ári. Seðlabankinn áætlaði nýlega að hækkunin kostaði viðskiptabankana um 5,5 milljarða á ársgrundvelli.

Þá sker íslenska bankakerfið sig einnig úr þegar kemur að kröfum um eigið fé en hefðbundið eiginfjárhlutfall banka á Íslandi er um tvö- til þrefalt hærra en á hinum Norðurlöndunum.

Við þetta bætist tilhneiging íslenskra stjórnvalda til að setja sérstakar íþyngjandi reglur um fjármálastarfsemi við innleiðingu EES gerða, svokölluð gullhúðun. SFF benti stjórnvöldum fyrr á þessu ári á 24 slík dæmi um gullhúðun á fjármálamarkaði sem leiddu af sér að bæði dýrara og flóknara væri að veita fjármálaþjónustu hér á landi.

Í okkar höndum

Þessi skökku starfsskilyrði hafa að líkindum átt talsverðan þátt í því að stærri fyrirtæki hér á landi hafa í talsverðum mæli leitað út fyrir landsteinana og sótt fjármagn frá erlendum fjármálafyrirtækjum sem ekki búa við jafn íþyngjandi álögur.

Ákall er í samfélaginu eftir hraðari uppbyggingu innviða, íbúðarhúsnæðis og atvinnuvega svo hægt sé að standa undir bættum lífskjörum. Ef vel á að takast til í þeim efnum þarf aðgangur að fjármagni að vera greiður. Því skiptir miklu að starfsskilyrði fjármálageirans sé eins og best verður á kosið og í takt við þau lönd sem við berum okkur alla jafna saman við. Ella er hætta á að heimatilbúnar kvaðir standi uppbyggingu og lífskjarasókn fyrir þrifum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.