Í síðustu viku fjallað Óðinn um alveg hreint einkennilega leið til að hvetja vörubílaeigendur á Íslandi að kaupa bíla sem ganga fyrir rafmagni.

Eins rifjar Óðinn um fráleidda og ósanngjarna aðferð við að ívilna þeim sem kaupa fólksbíla sem ganga fyrir rafmagni og bendir enn og aftur á að óskynsamlegt sé að ívilna þeim sem kaupa slíka bíla þegar framleiðslukostnaður á þeim er enn svo hár.

Að síðustu, þá bendir allt til að Guðlaugur Þór ætli ekki að bjóða sig fram aftur til formanns.

Hér má lesa pistilinn í heild sinni.

Í síðustu viku fjallað Óðinn um alveg hreint einkennilega leið til að hvetja vörubílaeigendur á Íslandi að kaupa bíla sem ganga fyrir rafmagni.

Eins rifjar Óðinn um fráleidda og ósanngjarna aðferð við að ívilna þeim sem kaupa fólksbíla sem ganga fyrir rafmagni og bendir enn og aftur á að óskynsamlegt sé að ívilna þeim sem kaupa slíka bíla þegar framleiðslukostnaður á þeim er enn svo hár.

Að síðustu, þá bendir allt til að Guðlaugur Þór ætli ekki að bjóða sig fram aftur til formanns.

Hér má lesa pistilinn í heild sinni.

Formannsframboð Guðlaugs Þórs og misheppnuð orkuskipti

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setti þá reglu að aðeins þeir sem kaupa bíla sem kosta undir 10 milljónum króna fengju orkustyrk upp á allt að 900 þúsund krónur. Ef fimm manna fjölskyldan í Grafarvogi þarf stærri bíl, sem kostar 10,1 milljón króna fær hún ekkert. Bara ekki neitt. Hver voru rökin. Engin.

Óðinn hélt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar væru þeirrar skoðunar að menn borguðu hlutfallslega skatta og fengju hlutfallslega bætur og styrki. En Guðlaugur Þór fer ekki eftir þessari stefnu flokksins.

Í fyrra kerfi voru einfaldlega afslættir af vörugjöldum og virðisaukaskatti. Bílaumboðin báru ábyrgð á því og eins og menn þekkja eru viðurlög við tolla- og virðisaukabrotum mjög hörð á Íslandi.

En Guðlaugur Þór vildi heldur að opinberir starfsmenn Orkusjóðs hefðu umsjón með styrkjunum með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð. Það er jú eitt af markmiðum þessarar ríkisstjórnar að skapa störf – hjá ríkinu. Ráðherrann hefur sagt að þetta nýja kerfi spari ríkissjóði milljarða en það hefði vel verið hægt að ná sparnaðinum með því einfaldlega að lækka skattaívilnanir. Slíkt kerfi hefði líka verið réttlátara.

***

Kerfið um fyrirtækjabíla enn vitlausara

Guðlaugur Þór tilkynnti um ríkisstyrki til vörubíla í fréttatilkynningu þann 20 september síðastliðinn. Þar kom fram að ráðherrann hafi ákveðið að verja 510 milljónum á þessu ári í ríkisstyrki í hreinorku vörubíla.

Guðlaugur Þór smíðaði kerfi sem á sér fyrirmynd í skömmtunarkerfum Framsóknarflokksins frá síðustu öld. Menn sækja um til ráðherrans, eða sérstakrar nefndar sem ráðherrann skipar, og þeir sem hljóta náð fyrir augum nefndarinnar fá styrkinn. Hvers vegna í ósköpunum er verið stofna nefnd í stað þess að fella niður hluta vörugjalda eða hafa hlutfallslega innspýtingu?

Á þessu nýja kerfi sést vel að það er orðið langt síðan Guðlaugur Þór hefur starfað á einkamarkaði. Síðast var hann útvarpsstjóri á Fínum miðli fyrir að verða 30 árum, ef Óðinn man rétt.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

***

Raunveruleikinn annar en veruleiki ráðherrans

En Óðinn skal útskýra veröldina fyrir ráðherranum. Þegar fyrirtæki ætlar að festa kaup á vörubíl þá er verðið ein helsta ákvörðunarástæða kaupanna. Bílaumboðin hafa sjaldan slíka bíla á lager því þeir eru dýrir og kaupendurnir vilja velja búnaðinn þeirra.

Það tekur því 4-6 mánuði, að jafnaði, að fá slíka grip eftir pöntun. En hvað gera menn ef þeir vita ekki verðið. Velja þeir ekki bara ódýrasta bílinn, og þá díseltrukk?

Brimborg fékk 100 milljónir króna í styrk af 510 milljónum sem var úthlutað. Bílaumboðið hefur augljóslega áttað sig á þessu misheppnaða kerfi Guðlaugs Þórs og sótti því sjálft um styrk vegna nokkurra bíla. Þetta var snjallt hjá Brimborgarmönnum en ráðherrann lítur illa út.

Eins er það auðvitað grín að menn hafi fengið styrk úr opinberum sjóðum að kaupa rafútgáfuna á mest selda bílnum Bandaríkjunum, Ford F-150. Sá bíll er ekki vörubíll heldur einkar hentugur að draga snjósleðakerru, eða rúnta upp í sumarbústað.

***

Fyrir hvað stendur ráðherrann?

Óðinn man vel þá tíma þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stýrði landinu. Það voru vondir tímar. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins var hvað duglegastur að berja á stjórninni, og það var Guðlaugur Þór Þórðarson. En svo varð hann ráðherra og Óðinn hefur eiginlega ekki skilið hann síðan.

Í júní kom Guðlaugur Þór með 150 aðgerðir í loftslagsmálum. Óðni er sagt að aftur og aftur hafi verið spurt um aðgerðirnar 150 við ríkisstjórnarborðið. En aldrei kom ráðherrann með svar.

En loks boðaði ráðherrann til blaðamannafundarins og tók þrjá aðra ráðherra með sér á fundinn. Þar voru kynnt þessi 150 atriði sem voru meira og minna eitthvað rugl.

Auðvitað eigum við að draga úr mengun og fara vel með orku. En það þarf að vera eitthvert vit í aðgerðunum og þær mega ekki kosta hvað sem er. Gleymum því ekki að Ísland er það land í öllum heiminum sem stendur einna sig best í orkuskiptum.

***

Ályktun Óðins

Óðinn telur að þessi einkennilega vinstristefna – og orkuskortsstefna - sem Guðlaugur Þór rekur í ráðuneyti sínu sé til marks um að hann ætli sér ekki að taka þátt í baráttunni um formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

Hann hefur augljóslega treyst á starfsmenn sína í ráðuneytinu, sem næstum hver einasti skelfur alla daga yfir hugsanlegum heimsenda vegna hækkandi hitastigs.

Það er svo sem gott og blessað, en það sem verra er að þetta ágæta fólk heldur að Ísland muni ráða einhverju þar um. Flestir aðhyllast þeir sömu trú og Kínverjar, sósíalisma, en það eru miklu frekar skoðanabræður þeirra í há-austri sem geta haft einhver áhrif á mengun í heiminum.

Maskína mældi á dögunum hvaða ráðherrar hafa staðið sig best. Guðlaugur Þór mælist lægstur allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins, en aðeins 2,8% telja að hann hafi staðið sig best. Miðað við verk ráðherrans stefnir hann ótrauður á 2%.