Óðinn fjallaði um strandveiðar, fræðimenn og formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.
Við þá umfjöllun er við að bæta, að það gerir Guðlaugi Þór erfitt fyrir nú að hann hafi sagt við ófáa í aðdraganda síðasta landsfundar að hann myndi bara bjóða sig fram í það eina skipti.
Þetta hafi hann, að sögn, líka sagt við eiginkonuna sem var víst ekki hrifinn af brölti eiginmannsins.
En hvort sem það er nú rétt eður ei, þá væri það ekki í fyrsta sinn í sögu Sjálfstæðisflokksins þar sem eiginkonan hafi útlokað að eiginmaðurinn yrði formaður Sjálfstæðisflokksins.
Fræðimaðurinn Daði, Áslaug Arna og „afbragð annarra manna“
Árið 2002 var samþykkt á alþingi að leggja veiðigjald á útgerðina í landinu. Gjaldið var fyrst lagt á fiskveiðiárið 2004 til 2005. Þá var gert var ráð fyrir að gjaldið myndi skila um 4 milljörðum króna á núvirði í ríkissjóð. Veiðigjaldið hefur hækkað mikið og var hæst árið 2018 þegar það var 15,5 milljarðar á núverandi verðlagi.
Þrátt fyrir miklar hækkanir á gjaldinu frá því það var fyrst lagt á þá hefur ekki náðst sátt um kvótakerfið. Óðinn óttast reyndar að það náist aldrei nokkur sátt um kerfið.
Fyrir það fyrsta verða alltaf til stjórnmálamenn sem mun reyna að fiska atkvæði út á öfundina sem þeir sjálfir kynda undir. Það sást best þegar Samfylkingin birti auglýsingar í aðdraganda kosninganna 2003 þar sem sýndur var útgerðarmaður á vindsæng á sólarströnd, korteri eftir að lög um veiðigjald var samþykkt.
Svo eru þeir sem hafa selt sig út úr atvinnugreininni, sumir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og eru mætir sem strandveiðimenn og vilja aukinn kvóta – í formi fleiri veiðidaga. Það væri verðugt verkefni að taka saman lista yfir þessa ágætu menn, svona þegar næsta kröfugerð þeirra verður sett fram í næstu kosningum.
Kvótakerfið er ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk. En Óðinn hefur ekki séð neina hugmyndir síðasta áratuginn sem bætt gætu kerfið.
***
Fræðimaður verður ráðherra
Hin nýja vinstristjórn ætlar að fjölga sóknardögum í strandveiði. Þetta er þvert á ráðleggingar fræðimanna. Og hverjir eru þeir nú.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra skrifaði ásamt fjórum öðrum hagfræðingum grein sem birtist árið 2021 í tímaritinu Regional Studies in Marine Science þar sem er fjallað um strandveiðar á Íslandi.
Þar kemur fram að strandveiðar, sem hófust árið 2009 fyrir litla báta með opnum aðgangi, séu að meðaltali óarðbærar. Höfundarnir benda á að það væri mun ódýrara að veiða fiskinn með skipunum innan aflamarkskerfisins. Þeir sögðu í greininni að „strandveiðar eru þess vegna efnahagsleg sóun“ og þó það kalli á frekari rannsókn hversu mikil sóunin sé, þá sé hún umtalsverð.
***
Það er skemmst að minnst þess þegar Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi gerði algjöran greinarmun á fræðimanninum Baldri og forsetaframbjóðandanum varðandi afstöðu sína til Icesave. Hann mundi reyndar ekki hvað hann kaus í þjóðaratkvæðagreiðslunni um þriðja Icesave-samninginn.
Óðinn spyr. Hver eru rökin fyrir því að skattgreiðendur haldi úti þessu svokallaða fræðasamfélagi þegar fræðimennirnir eru ósammála sjálfum sér þegar þeir komast í þá stöðu að nýta loks „kunnáttuna“ við stjórn landsins. Eða bjóða sig fram til slíkra starfa?
Það er auðvitað engin rök fyrir því. Og auðvitað hafa báðir þessir menn gert sig að algjörum ómerkingum orða sinna.
***
Hver verður formaður Sjálfstæðisflokks?
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir bauð sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum um liðna helgi. Óðinn hefur áður sagt að vel kæmi til greina að kjósa formann sem sé utan þingflokksins. Það er hins vegar enginn sem hefur sýnt embættinu áhuga því ekkert gagn að ræða þann möguleika frekar.
Áslaug Arna ber af þeim sem eru taldir hugsanlegir formannsframbjóðendur. Guðlaugur Þór hefur verið talinn einna sterkastur hugsanlegra mótherja Áslaugar Örnu. Óðinn telur mikinn vafa leika á því.
Könnun Gallup sem unnin var fyrir Þjóðmál sýnir miklu meiri styrk Áslaugar Örnu en Guðlaugs Þórs meðal stuðningsmanna flokksins. Hún var hins vegar ekki gerð meðal landsfundarfulltrúa. Þar kynni niðurstaðan að vera önnur.
Ástæðan fyrir vafanum er sú, að þegar myndir af framboðsfundi Áslaugar Örnu eru skoðaðar sjást þar margir vina Guðlaugs Þórs frá gamalli tíð. Þetta er án nokkurs vafa skýringin á því að Guðlaugur Þór hefur ekki enn boðið sig fram.
Hann er ekki að finna þann stuðning sem hann vildi. Mun hann bjóða sig fram? Það vita bara Guð og Ágústa. Sem er reyndar sögð óskaplega mótfallin framboði eiginmannsins.
***
Ekki í fyrsta sinn
Það væri á ekki fyrsta sinn sem eiginkona kæmi í veg fyrir að eiginmaðurinn eigi möguleika að verða formaður í Sjálfstæðisflokknum. Þegar Jón Magnússon forsætisráðherra lést 23. júní 1926 tók Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra við embættinu í tvær vikur. Þriðji ráðherra ríkisstjórnarinnar var Jón Þorláksson fjármálaráðherra.
Þegar þess var farið á leit við Magnús Guðmundsson að hann tæki við forsætisráðuneytinu sagði hann að Sofia eiginkona sín myndi ekki taka það í mál. Jón Þorláksson varð foringi Íhaldsmanna og formaður Sjálfstæðisflokksins við stofnun hans árið 1929, og Magnús Guðmundsson varaformaður.
***
„Afbragð annarra manna“
Í minningargrein Ólafs Thors, þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, um Magnús Guðmundsson segist hann ekki geta lýst honum betur en með því að taka sér í munn sömu orð og Magnús hafi sjálfur valið Jóni Þorlákssyni látnum: „Hann var afbragð annarra manna."
Ólafur Thors sagði ennfremur að ástæða þess að Magnús Guðmundsson hafi verið einn allra mesti áhrifamaður sinnar samtíðar á sviði stjórnmála hér á landi, hafi verið sú að hann hafi verið, hvílíkur mannkostamaður, hann var og átti til að bera mikla skapfestu, skilning og góðvild, vitsmuni og djúpsetta þekkingu á öllum viðfangsefnum stjórnmálanna, auk þess sem starfshæfni hans hafi verið með eindæmum.
Af hverju í ósköpunum er Óðinn að rifja þetta upp. Jú. Guðlaugur Þór Þórðarson er gjarn að líkja sér við stórmenni.
Hann gerði það þegar hann lýsti yfir framboði fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins árið 2022. Þá sagði Óðinn þetta um tilvitnuð orð í ræðu Guðlaugs Þórs.
Þegar þið sjáið mig skakklappast hér upp. Og ég bara segi bara eitt við ykkur. Úr því Franklin Delano Roosevelt gat klárað eina heimsstyrjöld á hækjum þá getum við klárað einn landsfund.“
Roosevelt lést þann 12. apríl árið 1945, en seinni heimsstyrjöldinni lauk 2. september sama ár með formlegri uppgjöf Japana. Þjóðverjar gáfust hins vegar upp 8. maí, þremur vikum eftir andlát Roosevelt, svo honum auðnaðist nú ekki að klára heimsstyrjöldina, blessuðum.
Hann var ekki heldur á hækjum. Roosevelt fékk mænusótt árið 1921, lamaðist fyrir neðan brjóst og þurfti brátt að notast við hjólastól þá rúmu tvo áratugi sem hann lifði. Nema þegar setti á sig járnspelkur til þess að geta staðið uppréttur á almannafæri. Á þeim tíma reyndi forsetinn að halda fötlun sinni leyndri gagnvart almenningi en það er langt síðan fötlun hans varð almenn vitneskja, þó hún hafi farið fram hjá Guðlaugi Þór.
Hitt er þó kannski merkilegra að hann hafi viljað bera sig saman við Roosevelt, sem Demókratar hafa í dýrlingatölu fyrir stóraukin ríkisumsvif og dólga-Keynesisma, sem framlengdi Kreppuna miklu um mörg ár, líkt og Milton Friedman hlaut Nóbels-verðlaun fyrir rannsóknir á. Það er hins vegar fátíðara að hægri menn leggi nafn hans við hégóma.
Fari svo að Ágústa banni Guðlaugi Þór að fara fram, líkt og Sofía Magnúsi forðum, þá ráðleggur Óðinn Guðlaugi Þór fara ekki í þær æfingar að líkja sér við Magnús.
Þó annars ágætur sé, þá getur Óðinn ekki séð að Guðlaugur Þór hafi nokkurn af þeim mannkostum sem Ólafur Thors taldi upp um Magnús Guðmundsson.