Óðinn fjallaði um kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins og framtíð hans í Viðskiptablaðinu sem kom út 18. desember.

Síðan þá hefur verið einkennileg umræða um landsfund Sjálfstæðisflokksins sem átti að halda í febrúar, í aðdraganda alþingiskosninga. Kosningarnar eru afstaðnar og því alls ekki óeðlilegt að endurskoða dagsetninguna.

Þeir sem eru þeirrar skoðunnar að ekki megi hrófla við landsfundi í febrúar eru skósveinar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þeir virðast misskilja stöðu Guðlaugs Þórs jafnmikið og hann sjálfur. Hún hefur nefnilega ekkert breyst frá síðasta landsfundi og allt það sem Óðinn sagði þá á enn í meginatriðum við.

Guðlaugur Þór hefur minni kjörþokka en Bjarni Benediktsson. Óðinn sá Gallup könnun sem var gerð seint í haust. Hún sýnir að Guðlaugur Þór er mjög neðarlega á blaði þegar stuðningsmenn flokksins voru spurðir um hvaða ráðherrum væri treystandi til að gegna formannsembætti í Sjálfstæðisflokknum.

Óðinn er þeirrar skoðunnar að nú sé rétti tíminn til að skoða breytingar í flokknum. En þeir sem halda að Guðlaugur Þór sé með lausn á fylgisleysi Sjálfstæðisflokksins þá veður viðkomandi í villu og svima.

Guðlaugur Þór og hans fólk hafa eyðilagt flokkstarfið í Reykjavík. Þetta fólk ætti heldur að skammast sín frekar en að reyna að komast til frekari metorða innan flokksins - flokki og þjóð til ógagns.

Engu máli skiptir hvort landsfundur er haldinn í febrúar, maí eða september hvað varðar nauðsynlegar umræður í flokknum. Nokkrar vikur skipta þar engu. Það hins vegar sterk rök fyrir því að fresta fundinum svo fyrir liggi með góðum fyrirvara hverjir ætli að halda áfram í forystu flokksins.

Þá er einnig mikilvægt að farið sé eftir reglum flokksins við val á fulltrúum á landsfund og í kosningu á fundinum.

Það er óhjákvæmilegt að nefnda þetta því skósveinar Guðlaugs Þórs hafa alla tíð átt óskaplega erfitt með að fara eftir reglum. Hæst ber auðvitað prófkjörið 2006 fyrir alþingiskosningarnar 2007. Sú saga verður sögð fyrr eða síðar.

Pistill Óðins um kosningarnar og framtíð flokksins fer hér á eftir. Hann er opinn því umfjöllunarefnið kemur öllum við.

Það er nefnilega þannig að þegar Sjálfstæðisflokknum gengur vel, þá gengur þjóðinni vel.

Kosningarnar, Sjálfstæðisflokkurinn og framtíðin

Útkoma Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningunum um síðustu mánaðamót var vond en hún var skiljanleg. Kjörtímabilið var uppskrift af miklu fylgistapi allra stjórnarflokkanna enda réði ríkisstjórnin hvorki við stór né smá mál.

Að auki var kosningabaráttan, aðrar kosningarnar í röð, slök og allsendis óskýrt var hver áherslumál flokksins voru.

***

Tveggja ára fylgishrun

Fylgishrun Sjálfstæðisflokksins hófst tveimur árum fyrir kosningar. Þá var fólk sem telur að einstaklingurinn sé betur fallinn til að taka ákvarðanir um helstu mál fyrir sig og sína en ekki ríkisvaldið, fólk sem telur að skattar eigi að vera almennir og sanngjarnir, fólk sem telur að ríkisútgjöld eiga að vera hófleg, fólk sem gerir þá kröfu að heilbrigðiskerfið og menntakerfið virki þegar á reynir, búið að fá nóg af sósíalismanum sem dundi á það af hálfu ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans.

Forysta Sjálfstæðisflokksins virðist hafa verið með bundið bæði fyrir augun og eyrun því hún varð ekki var við þetta. Og jafnvel þó Gallup mældi þetta mánaðarlega og fjölmiðlar flyttu fréttir af frjálsu fylgisfalli virtist forystan bara alls ekki átta sig á þessu.

Það var því mikill léttir meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins þegar Bjarni Benediktsson sleit ríkisstjórnarsamstarfinu loksins.

***

Óaðfinnanleg stjórnarslit

Þegar Bjarni Benediktsson sleit ríkisstjórninni þann 13. október þá gerði hann það óaðfinnanlega. Hann var málefnalegur, ákveðinn og sýndi mikla yfirburði yfir aðra leiðtoga stjórnmálaflokkanna í spjallþáttum þar sem meðal annars var rætt um hugtakið starfsstjórn.

Sjálfstæðismenn voru stoltir af formanninum, glöddust mjög og það leystist ákveðinn kraftur úr læðingi í flokknum. En þetta varði aðeins í 2-3 sólarhringa.

Strax eftir helgina hefði kosningabaráttan átt að hefjast. Skýr og afdráttarlaus skilaboð voru nauðsynleg eftir að flokkurinn hafði leiðst út í vinstri villu í hverju málinu á fætur öðru í ríkisstjórnarsamstarfinu. En það kom þögn. Og þeir sem hafa snefill af kunnáttu kosningum ókyrrðust.

***

Ógæfusaga Jóns Gunnarssonar

Óðinn er enn í dag að klóra sig í kollinum yfir því hvers vegna í ósköpunum Jón Gunnarsson varð sérstakur fulltrúi Bjarna Benediktssonar í matvælaráðuneytinu. Menn setja ekki fíl inn í postulínsbúð nema að þeir vilji brjóta allt sem inni er.

Þögnin var rofin þegar Jón Gunnarsson fór að gjamma aftur og aftur um hvalveiðar. Sem átti og mátti aldrei verða aðalatriði í kosningunum. Hinum venjulega manni er álíka mikið sama um hvalveiðar og utanríkismál þegar hann gengur að kjörborðinu.

Þann 25. október birti Útvarp Saga frétt þar sem rætt var við Jón.

Aðspurður um hvort hann komi til með að afgreiða leyfi fyrir hvalveiðum Hvals hf. segir Jón að hann muni veita Hval hf. leyfið enda sé það lögboðin skylda. Jón segist þó ekki vita hvort Hvalur hf. sé búinn að sækja um leyfið fyrir komandi hvalveiðitímabil enda hefji Jón ekki störf í ráðuneytinu fyrr en eftir helgi.

„En ef þeir eru ekki búnir að sækja um leyfið þá þurfa þeir að fara að gera það og svo afgreiði ég það lögum samkvæmt,“ sagði Jón.

Helstu skilaboð Sjálfstæðisflokksins á þessum dýrmæta tíma í kosningabaráttunni voru hvalveiðar. Síðan neyddist Bjarni Benediktsson til að benda Jóni og almenningi á að enginn annar en ráðherra gæti veitt slíkt leyfi – auk þess að segja að Jón hefði ekkert með málið að gera.

Rétt er að taka það fram að Óðinn er ekki aðeins fylgjandi hvalveiðum, heldur telur veiðarnar lífsnauðsynlegar fyrir Íslendinga svo þessi stórgáfuðu dýr éti ekki upp fiskimiðin okkar – sem eru ein helsta undirstaða velsældar í landinu.

***

Þórdís með böggum hildar

Þegar rúmlega viku hvalveiðiumræðu Jóns Gunnarssonar í öllum fjölmiðlum landsins lauk sá Óðinn frétt á mbl.is að morgni 29. október. Fyrirsögnin var „Þórdís með böggum hildar“ en fréttin var mest lesin á mest lesna fréttavef landsins.

Óðinn gladdist mjög. Loksins kemur eitthvað af viti frá varaformanninum og vekur athygli. Það var nefnilega þungskýjað yfir Þórdísi Kolbrúnu rúmri viku áður þegar kosið var um lista Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi.

Það vissu að allir að Þórdís var að flýja sitt gamla Norðvesturkjördæmi vegna þess helst að hún hafði ekki ratað í kjördæmið allt kjörtímabilið. Það er víst meira spennandi að fara til Nýju Jórvíkur en á Ísafjörð.

En gleðin varð að ógleði. Þegar Óðinn opnaði Moggafréttina kom í ljós að Þórdís Kolbrún var ekki að fjalla um þau mál sem mest brenna á íslenskum almenningi – heldur kosningar í Georgíu!

Það er líklega ekki tilviljun að allir helstu spámenn Viðreisnar gangi nú um bæinn og segi að Þórdís Kolbrún eigi að taka við sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Gísli Marteinn Baldursson er þar fremstur meðal jafningja.

***

Árangur fyrir alla…

Slagorð Sjálfstæðisflokkurinn fyrir kosningarnar árið 1999 var „Árangur fyrir alla“. Árin á undan hafði náðst gríðarlegur árangur. Ríkissjóður var rekinn hallalaus í fyrsta sinn í á annan áratug árið 1997, skattar höfðu verið lækkaðir, ríkisumsvif minnkuð og bjart var yfir íslensku samfélagi. Það sem mestu máli skipti var að slagorðið var í takt við árangurinn.

Það var reyndar snúið út úr slagorðinu á sínum tíma og sagt „Árangur fyrir Alla ríka“. Þetta var í þá tíð að einstaka vinstrimaður hafði húmor en þeim hefur því miður farið mjög fækkandi. Þetta grín hafði engin áhrif og flokkurinn fékk 40,7% atkvæða.

***

Davíð Oddsson heldur setningarræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1999. Flokkurinn fékk 40,7% í kosningunum sem haldar voru 8. maí.
© Morgunblaðið (mbl)

… meiri árangur hvað?

En árið 1999 datt mönnum ekki í hug að stæra sig of í slagorðunum. Árið 2024 var þetta slagorð endurnýtt. „Meiri árangur fyrir okkur öll“ skyldi það vera. Óðinn ætlar ekki að gera íslenskuna að umtalsefni.

Vissulega hefur flokkurinn náð gríðarlegum árangri fyrir land og þjóð frá árinu 1929. En hvernig datt mönnum í hug að hefja slagorðið á „meiri“ ? Á sama tíma og allir og amma þeirra voru þeirrar skoðunar að árangursleysið hafi verið algjört allt kjörtímabilið og fylgið komið niður í lægstu lægðir.

Það sem verra var að formaðurinn var í algerri afneitun um árangursleysið og lét efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, sem kallaður var Kratráður á dögum sínum í Viðskiptaráði, útskýra fyrir mönnum á X, gamla Twitter, að keisarinn væri bara alls ekkert nakinn, eins og Óðinn hefur fjallað um áður.

***

Hvað stóð flokkurinn fyrir?

Stærsti gallinn við kosningabaráttu flokksins voru óskýr skilaboð. Hvers vegna áttu kjósendur eiginlega að kjósa hann?

Fyrsta auglýsingin sem Óðinn sá var mínútu löng um um hver hafði trú á Íslandi fyrir hundrað árum. Svona auglýsingar eru ágætar til síns brúks þegar fylgið er í hæstu hæðum og flokkurinn nýtur trausts. En hann gerði það ekki.

Lífsnauðsynlegt var að segja með fáum stefnumálum hvers vegna flokkurinn var betri en hinir – þrátt fyrir allt. Það var vel hægt. En það var ekki gert.

***

Hvað tekur við?

Fimmtán ára formannstíð Bjarna Benediktssonar hefur einkennst af góðum sprettum og alvarlegum afleikjum. Þess á milli hefur verið doði yfir formanninum.

Formaðurinn segist hlakka til að fara í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Óðinn er ekki viss um að Bjarni Benediktsson sé þannig gerður að hann muni njóta sín í stjórnarandstöðu. Hann gerði það ekki Jóhönnuárin 2009-2013. Þá var hann vissulega ekki með þá reynslu sem hann hefur nú en með mun stærri þingflokk.

Það er ekki hægt að kenna öðrum um fylgisleysið. Miðflokkurinn varð stór því ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins fóru ekki eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Viðreisn varð stór því Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í að eyða langt um efni fram sem olli verðbólgu og háum vöxtum.

Það er tímabært fyrir Sjálfstæðisflokkinn nota tækifærið nú og ná vopnum sínum. Þeir sem hafa verið í forystu hans þurfa að horfa í eigin barm og axla ábyrgð. Fylgisleysið kom nefnilega ekki af sjálfu sér.

Óðinn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðisins. Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 18. desember.